Mögulegir eftirmenn Heimis

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Heimir Hallgrímsson er hættur sem landsliðsþjálfari karlaliðsins í knattspyrnu og eru nú væntanlega nær allir landsmenn áhugasamir um hver gæti orðið eftirmaður eins sigursælasta þjálfara Íslands frá upphafi.

Árangur Íslands hefur verið eftirtektarverður um allan heim, fyrst undir stjórn Lars Lager Lagerbäck og Heimis og síðan eingöngu undir stjórn Heimis en á þessum tíma keppti liðið í fyrsta sinn á Evrópu- og heimsmeistaramótunum. Eftir slík stórmót hefur fjárhagsstaða KSÍ, knattspyrnusambands Íslands, aldrei verið betri og ætti því eflaust að vera hægt að laða að þekkta þjálfara um allan heim.

Hér að neðan hefur mbl.is tekið saman stuttan lista um nokkra þjálfara sem gætu komið til greina.

Etur Henry áfram kappi við heimalandið?

Thierry Henry gerði garðinn frægan sem knattspyrnumaður hjá Arsenal og Barcelona og varð jafnframt markahæsti leikmaður Frakklands frá upphafi. Á árunum eftir að skórnir voru lagðir á hilluna hefur hann starfað sem sparkspekingur hjá Sky Sports fréttaveitunni ásamt því að sitja í þjálfarateymi belgíska landsliðsins sem aðstoðarþjálfari Roberto Martínez.

Thierry Henry á hliðarlínu Belga í Rússlandi í sumar.
Thierry Henry á hliðarlínu Belga í Rússlandi í sumar. AFP

Belgar komust alla leið í undanúrslit HM í sumar þar sem þeir töpuðu gegn löndum Henry frá Frakklandi og í gær tilkynnti Henry að hann ætlaði að hætta störfum hjá Sky Sports til að snúa sér alfarið að þjálfun.

Það gæti því vel verið að hann vilji stíga sín fyrstu skref sem aðalþjálfari landsliðs og þá jafnvel þess íslenska. Strákarnir okkar mæta einmitt heimsmeisturum Frökkum í vináttulandsleik í október og fengi Henry því annað tækifærið til að mæta samlöndum sínum.

Heimspekin og geðveikin

Hollendingurinn geðþekki, Louis van Gaal, hefur hótað því undanfarin misseri að snúa aftur til þjálfunar en þó ekki látið að því verða eftir að hann var rekinn frá Manchester United að loknum tveimur litskrúðugum árum.

Louis van Gaal þykir skrautlegur karakter.
Louis van Gaal þykir skrautlegur karakter. AFP

Van Gaal hefur þótt heldur torræður á sínum ótrúlega ferli. Hann gerði Ajax að Evrópumeisturum, vann deildartitla á Spáni og Þýskalandi og bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu með Hollandi. Þar á milli er hann þekktur fyrir kung-fu spörk á hliðarlínunni, spennuþrungna blaðamannafundi og fyrir að hafa sýnt eigin leikmönnum hreðjarnar á sér er þeir efuðust um aðferðafræði hans.

Van Gaal fékk um milljarð íslenskra króna frá Manchester United þegar félagið rak hann og því er hann ekki á flæðiskeri staddur. Það gæti því vel verið að hægt væri að lokka einn skrautlegasta þjálfara okkar tíma í Laugardalinn.

#WengerIn

Arséne Wenger sagði skilið við Arsenal í vor eftir 22 ára dvöl. Á þeim tíma varð hann enskur meistari í þrígang og bikarmeistari sjö sinnum en lokaárin voru Frakkanum erfið. Stuðningsmenn Arsenal vildu ólmir sjá hann róa á önnur mið og eftir að hafa mistekist að koma liðinu í Meistaradeildina annað árið í röð fengu þeir loks ósk sína uppfyllta.

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Wenger er þó ekki á því að hætta í þjálfun þrátt fyrir að vera orðinn 68 ára gamall og talaði hann nýlega um þörfina fyrir nýja áskorun en hann telur sig geta tekið að sér eitt stórt verkefni til viðbótar.

Wenger er fyrst og fremst þekktur fyrir að hlúa vel að ungum leikmönnum og að hafa náð þeim ótrúlega árangri að komast í gegnum heilt tímabil í ensku úrvalsdeildinni án ósigurs. Frægðarför með íslenska landsliðinu yrði fínn svanasöngur fyrir þennan frábæra þjálfara.

Fremstur meðal Íslendinga

Að lokum er nauðsynlegt að horfa til þess möguleika að ráða einfaldlega íslenskan þjálfara en að minnsta kosti einn fyrrverandi landsliðsþjálfari er þeirrar skoðunar að Íslendingur eigi að þjálfa landsliðið.

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. AFP

Verði farið þá leið hlýtur Rúnar Kristinsson að standa þar fremstur meðal jafninga fyrir utan Heimir sjálfan. Rúnar átti gríðarlega farsælan feril sem leikmaður og lék yfir hundrað landsleiki fyrir Ísland og í seinni tíð hefur hann staðið sig sem þjálfari líka.

Hann gerði KR að Íslandsmeisturum árin 2011 og 2013 áður en hann hélt út og þjálfaði fyrst Lillestrøm í Noregi og síðar Lokeren í Belgíu á árunum 2014 til 2017. Síðastliðið haust sneri hann svo aftur til uppeldisfélagsins í Vesturbænum og er þar við stjórnvölin í Pepsi-deildinni í dag. Það er erfitt að hugsa sér annan íslenskan þjálfara sem væri betur í stakk búinn til að taka við landsliðinu í dag en Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert