Breiðablik burstaði FH í 13. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
Gestirnir í FH hófu leikinn af meiri krafti og héldu boltanum vel en það voru hins vegar heimamenn sem brutu ísinn. Það gerði Daninn Thomas Mikkelsen á 32. mínútu með skallamarki eftir aukaspyrnu Gísla Eyjólfssonar. Daninn virtist þó vera í rangstöðu þegar boltanum var spyrnt og því hefði markið sennilega aldrei átt að standa.
FH-ingar náðu þó að jafna metin skömmu eftir hálfleik. Hjörtur Logi Valgarðsson átti þá fyrirgjöf frá hægri sem Jónatan Ingi Jónsson framlengdi á Robbie Crawford. Skotinn afgreiddi boltann svo í netið með fínu skoti af stuttu færi.
Glæsilegur tveggja mínútna kafli Blika sneri þó leiknum aftur við. Á 77. mínútu fengu þeir aðra aukaspyrnu utan teigs. Gísli lyfti þá boltanum á fjærstöngina og Mikkelsen lagði hann fyrir Davíð Kristján Ólafsson sem skoraði af stuttu færi. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Gísli svo sitt eigið mark eftir frábæra sendingu Andra Rafns Yeomans.
Blikar ráku svo smiðshöggið á frábæran sigur á 86. mínútu þegar Arnór Gauti Ragnarsson skoraði eftir fyrirgjöf Arons Bjarnasonar. Blikar eru því í þriðja sæti með 25 stig fyrir neðan Stjörnuna á markatölu. FH dettur hins vegar niður í 5. sæti og er áfram með 19 stig.