Valur tók á móti Víkingi Reykjavík í 13. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag en leiknum lauk með 4:1-sigri heimamanna.
Þeir Sölvi Geir Ottesen og Ricky Ten Voorde þurftu báðir að yfirgefa völlinn, snemma leiks vegna meiðsla sem var mikið áfall fyrir Víkinga en þeir hafa báðir verið að spila vel í sumar. Andri Adolphsson kom svo heimamönnum yfir á 23. mínútu eftir fyrirgjöf frá Dion Acoff. Birkir Már Sævarsson tvöfaldaði forystu Valsmanna með góðu skoti úr teignum á 33. mínútu og staðan því 2:0 í hálfleik.
Andri Adolphsson kom Val í 3:0 með sínu öðru marki í leiknumþegar hann fór framhjá tveimur varnarmönnum Víkings á 65. mínútu og setti boltann fast niðrí nærhornið af stuttu færi úr teignum. Nikolaj Hansen klóraði í bakkann fyrir gestina á 79. mínútu þegar hann klobbaði Bjarna Ólaf snyrtilega fyrir utan teiginn, slapp einn í gegn og hamraði boltanum í fjærhornið. Kristinn Ingi Halldórsson innsiglaði svo sigur Valsmanna á 89. mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson sendi hann í gegn og kláraði Kristinn Ingi færðið mjög vel. Lokatölur því 4:1 á Hlíðarenda í dag.
Valsmenn eru komnir í efsta sæti deildarinnar með 28 stig og hafa nú þriggja stiga forskot á Stjörnuna en Víkingur Reykjavík er í sjöunda sætinu með 18 stig.