„Við förum eins í alla leiki“

Magdalena Anna Reimus skoraði sigurmarkið fyrir Selfoss í kvöld.
Magdalena Anna Reimus skoraði sigurmarkið fyrir Selfoss í kvöld. Guðmundur Karl

Það var Magdalena Ann Reimus sem gerði gæfumuninn þegar Selfoss vann mikilvægan 1:0 sigur á KR á Alvogen-vellinum í Vesturbænum í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Magdalena skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu á 44. mínútu leiksins. Í viðtali við mbl.is eftir leik sagðist Magdalena vera ánægð með hversu skipulagt Selfoss liðið var í leiknum:

„Við vorum vel skipulagðar og gerðum það sem við lögðum upp með. Það var erfitt að búa til færi í sóknarleiknum en við náðum leysa það í lok fyrri hálfleiksins. Svo var bara þvílík barátta í KR liðinu í seinni hálfleik og við þurftum að berjast þvílíkt fyrir þessu."

Eftir leikinn er Selfoss komið í 12. stig sem þýðir að liðið er aðeins búið að slíta sig frá botnbaráttunni í bili. Magdalena sagði að þessi sigur væri mikilvægur og að stigin væru mikilvæg eins og öll önnur stig sem liðið hafði safnað sér í deildinni: „Þetta voru mikilvæg stig. Öll stig eru mikilvæg. Við förum eins í alla leiki. Leggjum áherslu á góðan varnarleik og gera okkar besta.“

Eins og áður segir skoraði Magdalena úr vítaspyrnu á 44. mínútu sem hún fiskaði sjálf. Spurð hvort að hún hafi verið stressuð fyrir spyrnuna sagðist hún að það fylgi því alltaf smá stress að taka vítaspyrnur: „Það fylgir því alltaf stress að taka víti. Það er bara þannig. Þetta er mikilvægasta og erfiðasta spyrnan í fótbolta finnst mér.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert