Á dögunum var það tilkynnt að landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir hafi gengið til liðs við Selfoss. Dagný, sem eignaðist strák 12. júní, mun spila með liðinu út tímabilið og kemur til með að styrkja það mikið á lokasprettinum í Pepsi-deild kvenna.
Dagný sagði við Morgunblaðið í gær að hún ætlaði sér inn á völlinn fyrr en seinna. Hún sagðist þó ætla að vera búin að ná sér að fullu áður en hún færi af stað.
„Ég ætla ekki að búa til einhver óþarfa meiðsli með því að fara fyrr af stað. Ég ætla bara að ná mér. En fyrir utan það er standið á mér gott. Ég var að koma úr sundi þar sem ég synti kílómetra. Ég var byrjuð hlaupa en gerði það aðeins of snemma. Núna er ég að æfa mig öðruvísi. En það er aldrei hægt að segja hvernig þessi líkami er.“
Dagný og kærastinn hennar Ómar Páll Sigurbjartsson eiga húsnæði á Selfossi. Spurð hvort að það hafi komið til greina að spila fyrir lið á höfuðborgarsvæðinu sagði hún að sá möguleiki hafi aldrei verið á borðinu:
„Ég hefði aldrei verið að keyra fram og til baka með litla. Þannig séð voru aldrei nein lið frá Reykjavík sem töluðu alvarlega við mig. Bara erlendis. Þannig að það kom bara til greina að leika með Selfossi. Þar eru toppþjálfarar og ég get æft eins mikið aukalega og ég vil. Ég get æft með karlaliðinu. Ég hef það rosalega gott þarna.“
Viðtalið við Dagnýju má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.