Knattspyrnumaðurinn Ivan Aleksic er genginn til liðs við KR og skrifar hann undir samning við Vesturbæjarliðið sem gildir út leiktíðina. Aleksic er vinstri bakvörður sem á að baki 50 landsleiki fyrir yngri landslið Króatíu.
Hann spilaði síðast með Novigrad í króatísku B-deildinni og var hann lykilmaður í liðinu, tímabilið 2015-2016 þegar liðið fór upp úr C-deildinni. Hann spilaði 40 leiki fyrir Novigrad þar sem hann skoraði 3 mörk en hann er uppalinn hjá Osijek sem er eitt af stærstu liðunum í Króatíu.
KR situr í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar eftir fyrstu 13. umferðirnar með 20 stig. Liðið fór ekki vel af stað í sumar en hefur verið að rétta úr kútnum í undanförnum leikjum og er nú 5 stigum frá Breiðabliki, sem er í þriðja sæti deildarinnar.