Stephanie Bukovec, markvörður Þórs/KA, var valin besti leikmaður 1. riðilsins í undankeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu en hún hélt hreinu í öllum þremur leikjum Akureyrarliðsins.
Íslandsmeistararnir eru komnir áfram í 32 liða úrslitin eftir að hafa spilað þrjá leiki í Belfast á Norður-Írlandi undanfarna vikuna. Þór/KA hóf keppni með 2:0-sigri á heimaliðinu, Linfield, og vann síðan Wexford Youths frá Írlandi í öðrum leiknum.
Fyrr í dag keppti Þór/KA svo við stórlið Ajax frá Hollandi og lauk þeim leik með markalausu jafntefli. Það dugði norðankonum til að komast áfram sem annað af tveimur bestu liðunum sem höfnuðu í öðru sæti riðils síns en undanriðlarnir voru tíu talsins.
Bukovec er frá Kanada og samdi við Þór/KA í síðasta mánuði en hún kom frá hollenska félaginu PEC Zwolle.
Clean sheet in 3 games! Player of the tournament, Stephanie Bukovec!! #UWCL #ÞÓRKA #fotboltinet pic.twitter.com/ujmR9WojIp
— Þór/KA (@thorkastelpur) August 13, 2018