Rétt í þessu var leik Þórs/KA og Ajax í Meistaradeild kvenna að ljúka í Belfast á Norður-Írlandi. Leiknum lauk 0:0 og dugði jafnteflið Þór/KA til að komast áfram þrátt fyrir að vera í öðru sæti síns riðils.
Tvö lið í öðru sæti í undanriðlunum tíu með bestan árangur gegn liðunum í fyrsta og þriðja sæti fóru áfram og það kom í hlut Þórs/KA og Honka frá Finnlandi.
Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi og gáfu liðin ekki mörg færi á sér. Þór/KA átti nokkrar marktilraunir en þær geiguðu allar. Arna Sif Ásgrímsdóttir átti að skora strax í upphafi en skalli hennar fór í jörðina og rétt framhjá. Hulda Ósk Jónsdóttir fékk svo gott færi en sniðug afgreiðsla hennar var aðeins of föst og fór rétt yfir markið.
Ajax fékk einnig sín færi en Stephanie Bukovec varði allt sem kom á markið. Skotin voru auðveld en í eitt skipti hreinlega fórnaði hún lífi og limum í glæsilegu útlaupi og kom þannig í veg fyrir mark.
Staðan var 0:0 í hálfleik og dugði sú staða Þór/KA eins og staðan var í öðrum riðlum.
Allan seinni hálfleikinn var hörð barátta úti á vellinum en færin voru fá. Mikill hiti myndaðist milli leikmanna og fóru nokkur gul spjöld á loft áður en Ariana Calderon fékk rauða spjaldið þegar kortér var eftir. Þór/KA barðist vel til loka, manni færri og voru leikmenn ekki alveg með það á hreinu að jafntefli dugði. Því var ekkert fagnað í lokin og leikmenn lögðust vonsviknir í grasið.
Þeir gátu hinsvegar fagnað sæti í 32ja liða úrslitum skömmu síðar en dregið verður til þeirra á föstudaginn kemur.