Aldrei upplifað neitt þessu líkt sem þjálfari

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var tilfinningaþrungið, með eindæmum,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir sannarlega hádramatískt kvöld í Kópavoginum. Blikar tryggðu sér þá sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar eftir sigur á Víkingi Ólafsvík eftir að hafa skorað jöfnunarmark á lokasekúndu uppbótartíma framlengingar og unnið svo í vítaspyrnukeppni.

„Ég verð eiginlega að segja það að ég hélt að þetta væri farið og að við myndum ekki komast áfram. Ólsararnir voru mjög taktískir í þessum leik og spiluðu ótrúlega vel. Það er bara synd fyrir þá að upplifa þetta augnablik í lokin, en eins sætt fyrir okkur í hina áttina og tryggja okkur í bikarúrslitin,“ sagði Ágúst Þór.

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Brynjólfur Darri Willumsson skoraði, bókstaflega í blálokin, og tryggði vítaspyrnukeppnina.

„Þetta er honum að þakka, þvílíka markið með síðustu snertingu framlengingarinnar,“ sagði Ágúst, en Brynjólfur er fæddur árið 2000 en kláraði færið á ögurstundu eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. „Hann hefur reyndar ekki gert neitt annað, hann er þvílíkt öflugur. En svo kemur vítakeppnin og það var bara 50/50, eins og leikurinn var frá byrjun. En við stöndum uppi sem sigurvegarar og það er fyrir öllu í bikarnum.“

„Veit ekki hvað það var sem kom okkur áfram“

Blikar voru mikið meira með boltann eins og kannski búist var við, en þurftu þrátt fyrir það að elta lengst af í leiknum eftir að hafa fengið á sig mörk úr föstum leikatriðum. Var eitthvað sem kom á óvart við leik Ólafsvíkinga?

„Ef eitthvað var þá fannst mér Ólsararnir betur skipulagðir en ég bjóst við. Það má segja að þeir hafi verið í vígahug, voru ótrúlega kröftugir frá fyrstu mínútu og fram á 120. Þeir ætluðu sér í bikarúrslitaleikinn en ég veit ekki hvað það var sem kom okkur áfram. Það var eitthvað, ég veit það ekki. Eitthvað skrítið,“ sagði Ágúst og hristi hausinn, vart trúandi því sem gerst hafði.

Er þetta magnaðasta augnablikið sem þú hefur upplifað síðan þó komst í Kópavoginn og tókst við Blikum?

„Já, og klárlega sem þjálfari. Ég hef reyndar upplifað þau nokkur sem leikmaður, það má nefna sem dæmi ´92 þegar Anthony Karl [Gregory] skoraði með hjólhestaspyrnu þegar sjö sekúndur voru eftir. Ég tók þátt í þeim leik svo maður hefur upplifað ýmislegt, en sennilega ekkert svona sem þjálfari,“ sagði Ágúst og rifjaði þar upp leik Vals og KA í úrslitaleik bikarsins árið 1992. Markið tryggði Val framlengingu þar sem þeir unnu að lokum og urðu bikarmeistarar.

Leikmenn voru skiljanlega örþreyttir eftir baráttuna, en að vinna á þennan hátt hlýtur að sama skapi að gefa mönnum mikið.

„Menn voru alveg búnir. Það var flott að spræku mennirnir sem komu inn á hafi klárað þetta, eins og Binni. Stuðningsmennirnir og allt batteríið á heiður skilinn, við erum komin í bikarúrslit bæði karla- og kvennamegin gegn Stjörnunni svo þetta er frábær árangur hjá báðum liðum Breiðabliks,“ sagði Ágúst Þór Gylfason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert