Breiðablik, efsta lið úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, tekur á móti fyrstudeildarliði Víkings frá Ólafsvík í kvöld í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Sigurliðið fer í úrslitaleik á Laugardalsvelli eftir mánuð.
Á meðan Ágúst Gylfason og Blikar hans hafa verið á siglingu og unnið fimm síðustu leiki sína hafa Ólafsvíkingar „hikstað“ að undanförnu í toppbaráttu 1. deildarinnar – gert tvö jafntefli í röð gegn liðum í fallbaráttu. Breiðablik hefur slegið út Íslandsmeistara Vals, KR og Leikni R. á leið sinn í undanúrslitin, en Víkingur R. er eina úrvalsdeildarliðið sem Ejub Purisevic og hans menn hafa unnið. Þeir slógu einnig út Fram úr 1. deild auk liða úr 3. og 4. deild.