„Þetta var bara magnað“

Breiðablik fagnar marki í sumar.
Breiðablik fagnar marki í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður Breiðabliks, mun seint gleyma viðureign liðsins gegn Víkingi Ólafsvík á Kópavogsvelli í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu sem fram fór í kvöld. Brynjólfur, sem fæddur er árið 2000, tryggði Blikum vítaspyrnukeppni sem þeir svo unnu þegar hann jafnaði á lokasekúndu uppbótartíma framlengingar. Já, það gerist ekki seinna en það.

„Það var allt galopið þarna hægra megin. Þegar snertingin kom var ég ákveðinn að skjóta og boltinn fór inn. Þetta var bara magnað. Geggjað,“ sagði Brynjólfur, nánast í móki þegar mbl.is tók hann tali mitt í fagnaðarlátum Blika eftir sigurinn.

Blikar lentu fyrst 1:0 undir í venjulegum leiktíma, jöfnuðu og tryggðu sér framlengingu. Þeir lentu svo aftur undir, 2:1, í framlengingu og tíminn virtist farinn þegar uppbótartími framlengingar var að líða.

„Maður var orðinn frekar stressaður. En um leið og ég fékk þetta færi þá ákvað ég að bomba á markið og vona það besta,“ sagði Brynjólfur.

En hvernig er að halda haus á svona stundu, þegar allt er undir og tíminn að renna út?

„Það er erfitt, sérstaklega þegar þeir eru að tefja og svona. Menn voru orðnir mjög pirraðir á þeim, þeir voru að tefja og markmaðurinn lá niðri í hvert einasta skipti. En maður fær alltaf einn séns og það er bara spurning hvort maður nýtir hann eða ekki,“ sagði Brynjólfur Darri Willumsson yfirvegaður við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka