Breiðablik tryggði sér nú í kvöld bikarmeistaratitil kvenna í knattspyrnu þegar liðið hafði betur gegn Stjörnunni, 2:1, í úrslitaleik þeirra á Laugardalsvelli. Þetta er 12. bikarmeistaratitill Breiðabliks og er nú liðið aðeins einum titli á eftir Val yfir flesta slíka í kvennaflokki.
Leikurinn var opinn og skemmtilegur og strax á sjöttu mínútu kom fyrsta dauðfærið þegar Telma Hjaltalín Þrastardóttir slapp ein inn fyrir vörn Breiðabliks, en Sonný Lára Þráinsdóttir í marki Blika varði glæsilega frá henni.
Blikar skoruðu fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og var þar að verki Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Eftir mistök í vörn Stjörnunnar fékk Agla María Albertsdóttir boltann á silfurfati á vinstri kantinum, sendi hann fyrir þar sem Berglind beið átekta og skilaði honum í netið.
Stjörnukonur virtust nokkuð slegnar út af laginu við markið og Blikar náðu yfirhöndinni í leiknum. Það skilaði þeim öðru markið á 36. mínútu, er brotið var á Berglindi utan teigs. Agla María tók spyrnuna inn á markteig þar sem Guðrún Arnardóttir sýndi styrk sinn og skallaði í netið.
Stjarnan vaknaði þá til lífsins og áður en fyrri hálfleikur var úti átti Megan Dunnigan eftir að skalla í stöngina á marki Blika, en staðan í hálfleik var 2:0 fyrir Breiðablik.
Síðari hálfleikur var tíðindalítill lengi vel. Stjarnan reyndi að finna leið inn í leikinn á ný en varð lítt ágengt gegn góðu skipulagi Blika. Á 63. mínútu gerðist ljótt atvik þegar Harpa Þorsteinsdóttir meiddist alvarlega er hún fékk slink á hnéð að því er virtist og var borin sárþjáð af velli. Sárt að sjá og ekki laust við að leikmenn beggja liða væru örlítið slegnir.
Við brotthvarf Hörpu svo að segja lamaðist sóknarleikur Stjörnunnar sem náði í raun aldrei að komast nærri því að vinna sig aftur inn í leikinn. Það kom því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Stjarnan náði að minnka muninn á 87. mínútu.
Telma Hjaltalín vann þá boltann á miðjunni og vippaði að marki nánast á miðjum vallarhelmingi Breiðabliks. Boltinn sveif yfir Sonný í markinu þaðan sem hann fór svo í stöngina og inn. Ótrúlegt mark, staðan orðin 2:1 og leikurinn galopinn á ný.
Stjarnan sótti stíft og gaf Blikum einnig færi á að sækja. Stuttu eftir markið fékk Berglind Björg fyrirgjöf inn á teiginn og átti hún þá skot í stöngina, áður en Stjarnan náði að hreinsa frá. Garðbæingar náðu þó ekki að skora annað mark og tryggja framlengingu og fögnuðu Blikar 2:1 sigri og 12. bikarmeistaratitill þeirra því staðreynd.
Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is og viðtöl birtast svo hér á vefnum síðar í kvöld. Nánar verður svo fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.