Breiðablik bikarmeistari í 12. sinn

Breiðablik tryggði sér nú í kvöld bikar­meist­ara­titil kvenna í knatt­spyrnu þegar liðið hafði bet­ur gegn Stjörn­unni, 2:1, í úr­slita­leik þeirra á Laug­ar­dals­velli. Þetta er 12. bikar­meist­ara­tit­ill Breiðabliks og er nú liðið aðeins ein­um titli á eft­ir Val yfir flesta slíka í kvenna­flokki.

Leik­ur­inn var op­inn og skemmti­leg­ur og strax á sjöttu mín­útu kom fyrsta dauðfærið þegar Telma Hjaltalín Þrast­ar­dótt­ir slapp ein inn fyr­ir vörn Breiðabliks, en Sonný Lára Þrá­ins­dótt­ir í marki Blika varði glæsi­lega frá henni.

Blikar skoruðu fyrsta mark leiks­ins á 19. mín­útu og var þar að verki Berg­lind Björg Þor­valds­dótt­ir. Eft­ir mis­tök í vörn Stjörn­unn­ar fékk Agla María Al­berts­dótt­ir bolt­ann á silf­urfati á vinstri kant­in­um, sendi hann fyr­ir þar sem Berg­lind beið átekta og skilaði hon­um í netið.

Stjörnu­kon­ur virt­ust nokkuð slegn­ar út af lag­inu við markið og Blikar náðu yf­ir­hönd­inni í leikn­um. Það skilaði þeim öðru markið á 36. mín­útu, er brotið var á Berg­lindi utan teigs. Agla María tók spyrn­una inn á markteig þar sem Guðrún Arn­ar­dótt­ir sýndi styrk sinn og skallaði í netið.

Stjarn­an vaknaði þá til lífs­ins og áður en fyrri hálfleik­ur var úti átti Meg­an Dunnig­an eft­ir að skalla í stöng­ina á marki Blika, en staðan í hálfleik var 2:0 fyr­ir Breiðablik.

Harpa meidd­ist al­var­lega

Síðari hálfleik­ur var tíðinda­lít­ill lengi vel. Stjarn­an reyndi að finna leið inn í leik­inn á ný en varð lítt ágengt gegn góðu skipu­lagi Blika. Á 63. mín­útu gerðist ljótt at­vik þegar Harpa Þor­steins­dótt­ir meidd­ist al­var­lega er hún fékk slink á hnéð að því er virt­ist og var bor­in sárþjáð af velli. Sárt að sjá og ekki laust við að leik­menn beggja liða væru ör­lítið slegn­ir.

Við brott­hvarf Hörpu svo að segja lamaðist sókn­ar­leik­ur Stjörn­unn­ar sem náði í raun aldrei að kom­ast nærri því að vinna sig aft­ur inn í leik­inn. Það kom því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Stjarn­an náði að minnka mun­inn á 87. mín­útu.

Telma Hjaltalín vann þá bolt­ann á miðjunni og vippaði að marki nán­ast á miðjum vall­ar­helm­ingi Breiðabliks. Bolt­inn sveif yfir Sonný í mark­inu þaðan sem hann fór svo í stöng­ina og inn. Ótrú­legt mark, staðan orðin 2:1 og leik­ur­inn gal­op­inn á ný.

Stjarn­an sótti stíft og gaf Blik­um einnig færi á að sækja. Stuttu eft­ir markið fékk Berg­lind Björg fyr­ir­gjöf inn á teig­inn og átti hún þá skot í stöng­ina, áður en Stjarn­an náði að hreinsa frá. Garðbæ­ing­ar náðu þó ekki að skora annað mark og tryggja fram­leng­ingu og fögnuðu Blikar 2:1 sigri og 12. bikar­meist­ara­tit­ill þeirra því staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýs­ingu hér á mbl.is og viðtöl birt­ast svo hér á vefn­um síðar í kvöld. Nán­ar verður svo fjallað um leik­inn í Morg­un­blaðinu á morg­un.

Stjarn­an 1:2 Breiðablik opna loka
skorar Telma Hjaltalín (87. mín.)
Mörk
skorar Berglind Björg Þorvaldsdóttir (19. mín.)
skorar Guðrún Arnardóttir (36. mín.)
fær gult spjald Megan Dunnigan (36. mín.)
Spjöld
fær gult spjald Guðrún Arnardóttir (26. mín.)
mín.
90 Leik lokið
Blikar eru bikarmeistarar 2018!
90
+5. Þetta er að fjara út. Blikar syngja hátt og snjallt í stúkunni.
90
+3. Virkilega vel gert hjá Sonný sem kemur svífandi út í teiginn og grípur boltann.
90
+3. Stjarnan fær aukaspyrnu á miðjunni og það fara nánast allar fram.
90
Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Nú heyrist vel í stuðningsmönnum beggja liða.
89 Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik) á skot í stöng
Stórhætta!! Alexandra sendir fyrir, Berglind tekur boltann í fyrsta og skýtur í stöngina! Boltinn er ennþá laus í teignum, Berglind sprettur af stað í von um að koma honum yfir línuna en Bryndís bjargar meistaralega í vörninni!
88 Ana Victoria Cate (Stjarnan) kemur inn á
88 Ásgerður S. Baldursdóttir (Stjarnan) fer af velli
87 MARK! Telma Hjaltalín (Stjarnan) skorar
1:2 - Þetta var afar undarlegt! Telma Hjaltalín vann boltann á miðjunni, tók á rás og var á milli miðju og vítateigs Blika þegar hún vippaði að marki. Boltinn sveif yfir Sonný, í stöngina og inn. Nú verður sko barist!
84 Bryndís Björnsdóttir (Stjarnan) kemur inn á
84 Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) fer af velli
83
Það er farið að heyrast hátt í stuðningsmönnum Blika á pöllunum. Sigursöngvar farnir að óma.
79
Það að hafa misst Hörpu af velli er gríðarlegt áfall fyrir Stjörnuna, sem gengur illa að byggja upp sóknir með hana ekki til staðar. Tíminn er að hlaupa frá Garðbæingum og það hratt.
77 Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Breiðablik) kemur inn á
77 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Breiðablik) fer af velli
74 Guðmunda Brynja Óladóttir (Stjarnan) á skalla sem er varinn
Boltinn fór meira upp í loftið en á markið. Sonný var engu að síður gríðarlega örugg og handsamaði hann.
70
Stjarnan heldur áfram að reyna. Guðmunda á nú sendingu fyrir sem er of föst og fer útaf. Blikar sigla á meðan lygnan sjó og virðast hafa leikinn í hendi sér.
67 Guðmunda Brynja Óladóttir (Stjarnan) kemur inn á
67 Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan) fer af velli
Bestu batakveðjur á Hörpu.
66
Ég er búinn að sjá endursýningu af atvikinu og þetta er hrikalega sárt að sjá. Það kemur ekkert högg eða neitt heldur kemur slinkur á hnéð þegar Harpa stígur í hægri fótinn. Hún er hér borinn af velli og heldur um höfuð sér. Við sendum henni hlýja strauma. Ömurlegt að sjá.
63
Þetta lítur skelfilega út! Harpa pressar Heiðdísi og virðist misstíga sig í leiðinni. Hún steinliggur, sárkvalin og heldur um hnéð. Leikurinn er stöðvaður og hún fær aðhlynningu. Það koma börur svo til strax. Ef Harpa bregst svona við þá er eitthvað mikið að.
61
Leikurinn er ekki eins opinn núna og hann var í fyrri hálfleik. Það er barátta í Stjörnunni en skipulag Blika heldur vel. Blikarnir skapa svo hættu með skyndisóknum sínum og gefa Stjörnunni engan frið í leit sinni að leið inn í leikinn á ný.
57
María Eva er komin á harðaspretti inn í vítateig Blika en Heiðdís bjargar með frábærri tæklingu. Hún fór bara í boltann en María fær væna flugferð í kjölfarið og heldur um öxlina um stund.
54 Lára Kristín Pedersen (Stjarnan) á skot framhjá
Blikar skalla burt úr teignum og Lára Kristín tekur boltann á lofti og reynir skot. Það fór hins vegar framhjá en undirstrikar það að Stjörnukonur eru hvergi nærri hættar.
52 Alexandra Jóhannsdóttir (Breiðablik) á skot framhjá
Sigrún Ella misreiknar sig í vinstri bakverðinum hjá Stjörnunni. Alexandra nær boltanum og þrumar að marki í nokkuð þröngri stöðu en yfir.
48 Agla María Albertsdóttir (Breiðablik) á skot sem er varið
Í þetta sinn er aukaspyrnan frekar laus, Agla María ætlaðist til að samherjarnir myndu ráðast á boltann en hann endaði að lokum í fangi Berglindar í markinu.
47
María Eva brýtur klaufalega á Öglu Maríu. Breiðablik fær aukaspyrnu, svipað nálægt vítateignum og skilaði öðru marki þeirra hinum megin í fyrri hálfleiknum.
46 Seinni hálfleikur hafinn
Blikar taka miðju eftir hlé.
45 Hálfleikur
Blikar hafa gott forskot í hálfleik en þetta er hvergi nærri búið!
44 Megan Dunnigan (Stjarnan) á skalla í stöng
Vó! Þórdís Hrönn með aukaspyrnu inn á teig, Megan fær að skalla boltann nokkuð óáreitt og hann svífur í stöngina. Sonný hreyfði hvorki legg né lið í markinu, átti sennilega ekki von á því að boltinn færi svona nálægt!
43
Það er kominn meiri kraftur í Stjörnuna núna og ég sé hér uppi í rjáfri hvernig grimmdin er farin að skína úr augunum á þeim.
38 Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Sending fyrir, Harpa tók boltann í fyrsta en hann var alltaf á leiðinni framhjá. Nú þarf Stjarnan að halda haus.
38
Ef Stjörnukonur voru slegnar út af laginu eftir fyrra markið, hvernig munu þær þá bregðast við núna? Þeirra skipulag er í molum.
36 MARK! Guðrún Arnardóttir (Breiðablik) skorar
0:2 - Blikar tvöfalda forskotið! Agla María tók aukaspyrnuna inn á markteig, Guðrún hefur betur í skallaeinvígi við Önnu Maríu og Megan á markteig og skallar í netið. Blikar fagna innilega!
36 Megan Dunnigan (Stjarnan) fær gult spjald
Flækist einhvern veginn í Berglindi og brýtur á henni. Blikar fá aukaspyrnu við vítateigshornið vinstra megin.
33
Jafnræði var með liðunum fram að markinu en eftir það hafa Blikar verið sterkari. Stjörnukonur voru svolítið slegnar út af laginu.
30 Agla María Albertsdóttir (Breiðablik) á skot sem er varið
Boltinn virtist á leið upp í hornið en Berglind var með þetta allt á hreinu.
30
Blikar fá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Stjörnunnar.
29 Hildur Antonsdóttir (Breiðablik) á skot í stöng
Vó! Eftir hornspyrnuna fékk Karólína Lea boltann hægra megin. Hún sendi fyrir og Hildur laumaði sér á nærstöngina. Hún náði skotinu í fyrsta en boltinn fór í stöngina og þaðan framhjá.
29 Breiðablik fær hornspyrnu
Frábærlega gert hjá Alexöndru til þess að vinna þessa hornspyrnu.
27 Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan) á skot framhjá
Langt innkast. Harpa er með bakið í markið en nær að snúa sér og skjóta, en framhjá.
27 Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan) á skot sem er varið
Harpa tók spyrnuna en boltinn fór beint í varnarvegginn. Þórdís Hrönn stóð einnig yfir boltanum og hefði kannski getað notað vinstri til þess að reyna að skrúfa boltann framhjá veggnum.
26 Guðrún Arnardóttir (Breiðablik) fær gult spjald
Aukaspyrna á STÓRhættulegum stað. Harpa Þorsteins vann boltann af Guðrúnu sem þurfti að elta hana og braut svo af sér nánast á vítateigslínunni.
22
Sonný æðir út úr marki Blika, meira að segja út úr vítateignum, til þess að tækla boltann burt áður en Harpa komst í hann.
20
Þetta var má segja fyrsta alvöru færi Blika í leiknum. Mistök eins og þessi í aðdraganda marksins eru rándýr.
19 MARK! Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik) skorar
0:1 - Hver önnur en Berglind Björg?! María Eva í hægri bakverðinum hjá Stjörnunni gerir sig seka um afar slæm mistök. Löng sending fram hjá Blikum, María hittir ekki boltann og Agla María fær hann á silfurfati. Hún æðir upp að endamörkum, sendir fyrir og Berglind skilar honum í netið.
17
Ekkert kom úr hornspyrnunni. Kristín Dís bjargaði því svo að Stjarnan kæmist í skyndisókn í kjölfarið.
16 Breiðablik fær hornspyrnu
Fyrsta hornspyrna leiksins.
15
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Blika, æðir nú út að hliðarlínu og öskrar fyrirmæli á sínar stelpur. Ekki alveg nógu sáttur með gang mála.
11
Frábær samleikur hjá Stjörnunni. Eftir innkast skallar Harpa boltann á Katrínu, sem sendir í kjölfarið stungusendingu aftur á Hörpu. Hún tekur á rás en Heiðdís Lillýardóttir kemst fyrir áður en Harpa nær að koma Þórdísi Hrönn í dauðafæri.
10
Telma með boltann á hægri kantinum, var í fínni stöðu til þess að senda fyrir en setti aðeins of mikinn kraft í fyrirgjöfina.
9
Blikinn Alexandra Jóhannsdóttir fær tiltal fyrir að hanga nánast í Telmu á miðjunni.
6 Telma Hjaltalín (Stjarnan) á skot sem er varið
Dauðafæri!! Katrín Ásbjörns sýndist mér eiga þessa glæsilegu stungusendingu á Telmu. Ásta Eir gerði hana réttstæða. Telma er komin ein gegn Sonný, sem ver hins vegar frábærlega í marki Blika!
4 Agla María Albertsdóttir (Breiðablik) á skot sem er varið
Agla María leikur með boltann á vinstri kantinum, er komin inn í teig og ætlaði sennilega að senda fyrir en þetta reyndist meira vera skot.
1 Leikur hafinn
Það er Stjarnan sem byrjar með boltann og sækir í átt að Laugardalslaug í fyrri hálfleik.
0
Þá eru öll formsatriði að baki og leikurinn fer að hefjast.
0
Búið að spila íslenska þjóðsönginn og það var vel tekið undir.
0
Þá ganga liðin inn á völl á eftir Sigurði Þrastarsyni dómara og aðstoðarmanna hans. Það er spenna í loftinu.
0
Mikill fjöldi yngri iðkenda úr kvennaflokkum félaganna koma nú inn á völlinn og bíða þess að taka á móti fyrirmyndunum sínum. Þetta er gaman að sjá.
0
Liðin hafa nú lokið sínum upphitunum og halda inn í klefa til þess að fá nokkur lokaorð í eyra. Trommurnar eru komnar í gang í stúkunni og enn streymir fólk að.
0
Þegar þetta er skrifað þá er hálftími í upphafsflautið en það er gaman að sjá hversu margir áhorfendur eru farnir að koma sér fyrir, vel merktir sínum liðum.
0
Aðstæður hér í Laugardalnum eru með ágætum. Það er þurrt og bjart en þó ekki sérstaklega hlýtt. Golan er köld.
0
Blikar eru fyrri til að koma út í upphitun. Stuðningsmenn þeirra eru að hita upp hér á svæði Þróttar við hlið vallarins, en Garðbæingar ætluðu að hittast á eigin heimavelli áður en haldið yrði á völlinn. Vonandi verður góður fjöldi í stúkunni og góð stemning.
0
Byrjunarliðin voru að detta í hús og þau má sjá hér neðst undir lýsingunni. Það er ekkert sem kemur á óvart þar, nema kannski það að Ana Cate er á bekknum hjá Stjörnunni og ef mér skjátlast ekki er hún þar með í fyrsta sinn í hóp í sumar.
0
Ef við förum yfir leið liðanna hingað í úrslitaleikinn þá vann Breiðablik KR, ÍR og Val en Stjarnan vann Þór/KA, Selfoss og Fylki. Fylkir hafði áður unnið ríkjandi meistara ÍBV, sem einmitt unnu Stjörnuna í framlengingu í bikarúrslitunum í fyrra.
0
Þessi lið hafa þegar mæst tvívegis í Pepsi-deildinni í sumar og hafa Blikar unnið báða leikina. Í fyrstu umferð unnu Blikar 6:2 í Garðabæ og svo 1:0 á heimavelli um miðjan júlí. Þá eru Blikar á toppi deildarinnar í harðri baráttu við Þór/KA um Íslandsmeistaratitilinn. Þessi leikur er aftur á móti eini möguleiki Stjörnunnar á titli í sumar, en liðið er níu stigum frá toppsæti deildarinnar og situr þar í fjórða sæti.
0
Breiðablik á sér töluvert lengri sögu í bikarkeppninni en Stjarnan. Blikar hafa 11 bikarmeistaratitla á bakinu frá þeim fyrsta árið 1981 en Stjarnan hefur unnið þessa keppni þrívegis, fyrst árið 2012.
0
Þessi lið hafa svo til verið í áskrift að bikarúrslitum síðustu ár og annað þeirra leikið til úrslita á hverju ári sex ár í röð; Stjarnan fjórum sinnum og Breiðablik tvisvar. Þau hafa hins vegar aldrei mæst í úrslitaleik keppninnar fyrr en nú.
0
Gott kvöld og verið velkomin með mbl.is í beina textalýsingu frá leik Stjörnunnar og Breiðabliks í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna í fótbolta. Flautað er til leiks hér á Laugardalsvelli klukkan 19.15.
Sjá meira
Sjá allt

Stjarnan: (4-5-1) Mark: Berglind Hrund Jónasdóttir. Vörn: María Eva Eyjólfsdóttir, Megan Dunnigan, Anna María Baldursdóttir, Sigrún Ella Einarsdóttir. Miðja: Telma Hjaltalín, Ásgerður S. Baldursdóttir (Ana Victoria Cate 88), Katrín Ásbjörnsdóttir (Bryndís Björnsdóttir 84), Lára Kristín Pedersen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir. Sókn: Harpa Þorsteinsdóttir (Guðmunda Brynja Óladóttir 67).
Varamenn: Birna Kristjánsdóttir (M), Ana Victoria Cate, Brittany Basinger, Guðmunda Brynja Óladóttir, Viktoría V. Guðrúnardóttir, Birna Jóhannsdóttir, Bryndís Björnsdóttir.

Breiðablik: (4-3-3) Mark: Sonný Lára Þráinsdóttir. Vörn: Ásta Eir Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Heiðdís Lillýardóttir, Kristín Dís Árnadóttir. Miðja: Hildur Antonsdóttir, Fjolla Shala, Alexandra Jóhannsdóttir. Sókn: Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir 77), Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Agla María Albertsdóttir.
Varamenn: (M), Samantha Lofton, Aldís Kara Lúðvíksdóttir, Berglind Baldursdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Hildur Þóra Hákonardóttir, Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir.

Skot: Breiðablik 8 (7) - Stjarnan 8 (5)
Horn: Breiðablik 2.

Lýsandi: Andri Yrkill Valsson
Völlur: Laugardalsvöllur

Leikur hefst
17. ágú. 2018 19:15

Aðstæður:
Gætu vart verið betri. Tólf stiga hiti, þurrt og nánast logn. Völlurinn flottur.

Dómari: Sigurður Hjörtur Þrastarson
Aðstoðardómarar: Gylfi Tryggvason og Egill Guðvarður Guðlaugsson

mbl.is

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
04.04 16:45 Ísland : Noregur
04.04 19:00 Sviss : Frakkland
08.04 16:45 Ísland : Sviss
08.04 18:00 Noregur : Frakkland
30.05 18:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
03.06 18:00 Ísland : Frakkland
03.06 18:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert