Meistararnir unnu toppslaginn

Dion Acoff og Andri Rafn Yeoman á Kópavogsvelli í kvöld.
Dion Acoff og Andri Rafn Yeoman á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór

Íslandsmeistarar Vals eru komnir aftur í toppsæti Pepsi-deildar karla í fótbolta eftir 3:1-sigur á Breiðabliki í toppslag í Kópavogi í kvöld. Valsmenn voru mun betri í fyrri hálfleik en Breiðablik betra í síðari hálfleik, en Valsmenn nýttu færin sín betur. 

Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Breiðabliks í fyrri hálfleik, en lítið var um færi fyrri hluta hálfleiksins. Eftir því sem leið á hálfleikinn urðu sóknir Valsmanna hættulegri og fyrsta markið kom á 34. mínútu. Birkir Már Sævarsson gerði þá vel og vann vítaspyrnu eftir baráttu við Damir Muminovic. Patrick Pedersen fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Pedersen var svo aftur á ferðinni í síðustu sókn fyrri hálfleiks. Birkir Már Sævarsson sendi á Dion Acoff sem gaf svo fyrir á danska framherjann sem kláraði með góðu skoti í hornið. Breiðablik tók miðju og flautað var til hálfleiks um leið, staðan 2:0.

Leikurinn snerist algjörlega við í seinni hálfleik og Breiðablik fékk fjölmörg færi áður en Thomas Mikkelsen skoraði á 70. mínútu og minnkaði muninn í 2:1. Hann skallaði þá í slá og inn af stuttu færi eftir mistök Antons Ara Einarssonar í marki Vals.

Breiðablik var líklegra til að jafna metin en Valur að bæta við næstu mínútur og kom það algjörlega gegn gangi leiksins að Dion Acoff breytti stöðunni í 3:1 á 82. mínútu. Hann skoraði þá af stuttu færi eftir skallaeinvígi í teig Breiðabliks og nýtti hann óvænt færi vel. Eftir það róaðist leikurinn og Valsmenn sigldu þremur stigum í höfn. 

Breiðablik 1:3 Valur opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert