Valsmenn geta fengið þetta í bakið

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var eins og dagur og nótt,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir svekkjandi 3:1-tap fyrir Val í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. Valsmenn voru mikið betri í fyrri hálfleik en Breiðablik var sterkara í þeim síðari. 

„Tempóið var rólegt í fyrri hálfleik og við fengum annað markið á okkur í lok fyrri hálfleiks og það var erfitt að koma til baka. Við sýndum karakter í seinni hálfleik og komumst í 2:1. Það fór um Valsarana, við tókum yfir leikinn og það var svekkjandi að ná ekki að jafna áður en þeir skoruðu þriðja markið. Við vorum búnir að leggja allt í sölurnar.“

„Seinni hálfleikurinn var góður, kannski voru Valsararnir þreyttir í seinni en við virkuðum þreyttir í fyrri hálfleik. Það þýðir ekki að tala um það því stigin þrjú eru þeirra. Ég hefði viljað sjá boltann inni þegar þeir björguðu á línu nokkrum sinnum.“

Gísli Eyjólfsson fór af velli í seinni hálfleik og miðvörðurinn Elfar Freyr Helgason kom inn í hans stað. 

„Gísli er búinn að vera tæpur og hann var farinn að haltra. Við breyttum, fórum í þriggja miðvarða kerfi og með því færðum við bakverðina framar. Það skilaði sér vel og við fengum fullt af færum.“

Breiðablik er enn í harðri toppbaráttu, þrátt fyrir tapið, en Valsmenn eru nú efstir. Hann nýtti tækifærið og skaut létt á kollega sinn hjá Val, Ólaf Jóhannesson. 

„Það er sárt að missa af þessum stigum en þetta er ekki búið, við höldum bara áfram. Valsararnir eru á toppnum núna og þar hafa þeir verið megnið af sumrinu. Þeim líður vel þar, en þeir mega ekki vera of „cocky“ þar, eins og þjálfarinn. Hann er dálítið „cocky“ og þeir geta fengið þetta í bakið ef þeir halda ekki rétt á spöðunum.“

Ágúst lét stundum vel í sér heyra á hliðarlínunni. 

„Línan var oft skrítin en heilt yfir var þetta vel dæmt. Það voru nokkur smáatriði sem hefðu mátt betur fara. Valsararnir fengu þrjú stig og það er erfitt að kyngja því,“ sagði þjálfarinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert