Tímamótaleikur hjá Finni

Finnur Orri Margeirsson í leik með KR.
Finnur Orri Margeirsson í leik með KR. mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Orri Margeirsson miðjumaður KR-inga leikur tímamótaleik í dag en leikur KR og FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu var að hefjast í Kaplakrika núna klukkan 17.15.

Þetta er 200. leikur Finns í efstu deild hér á landi en þar af eru 140 leikir fyrir uppeldisfélagið Breiðablik og síðan 60 leikir með KR en þetta er þriðja tímabilið sem Finnur leikur með Vesturbæjarfélaginu.

Hann er einn allra yngsti leikmaðurinn sem nær þessum áfanga en Finnur Orri er aðeins 27 ára gamall.

Í millitíðinni lék Finnur eitt ár, 2015, með Lilleström í norsku úrvalsdeildinni og spilaði þar 27 leiki.

Finnur skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í síðasta leik, 4:1 sigri KR gegn ÍBV, og það kom því að lokum í hans 199. leik á hans ellefta tímabili í meistaraflokki.

Leikur KR og FH er í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert