„Belgía er eitt af bestu liðum heims og gerðu okkur erfitt fyrir eftir að við lentum undir. En við sýndum karakter og spiluðum bara ágætlega að mínu mati,“ sagði Birkir Bjarnason í samtali við mbl.is á Laugardalsvelli í kvöld.
„Belgarnir sýndu í kvöld að þeir eru eitt af bestu liðum í heimi. Mér fannst við vera margfalt betri en í síðasta leik. Markmiðið var að lyfta þessu upp á hærra plan og mér fannst við gera það. Við spiluðum bara mjög góðan bolta í dag þótt þeir hafi reyndar skorað einföld mörk,“ sagði Birkir sem lék inni á miðri miðjunni gegn Belgíu. Hefur hann gert það áður með landsliðinu en þó hefur hans hlutverk í landsliðinu yfirleitt verið vinstra megin á miðjunni.
„Ég spila þessa stöðu hjá Villa og þetta er því mín staða,“ sagði Birkir sem harkaði af sér og spila gegn Belgíu þótt meiðsli hafi angrað hann eftir leikinn gegn Sviss. „Ég fékk smá tak í bakið í síðasta leik og eitthvað í kálfa. Ég var svolítið stífur en þetta var í lagi,“ sagði Birkir Bjarnason.