Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, var vissulega afar svekktur eftir tap gegn Stjörnunni í bikarúrslitaleik karla í fótbolta í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var markalaus og réðust úrslitin því í vítaspyrnukeppni.
„Þetta voru langar 120 mínútur og það er erfitt að tapa í vítakeppni í lokin. Ég óska Stjörnumönnum til hamingju með sigurinn. Þetta er 50/50 í vítakeppni og þeir voru betri á vítapunktinum í dag."
Ágúst var nokkuð sáttur við spilamennsku síns liðs, þrátt fyrir svekkjandi tap að lokum.
„Mér fannst við hafa tök á þessu í 80 mínútur, við spiluðum boltanum á jörðinni og létum hann rúlla. Svo fara þeir í langa bolta síðustu tíu mínúturnar, leið eitt að markinu, og það hentar þeim og gekk vel. Halli ver svo frábærlega vel á línu í blálok venjulegs leiktíma, svo fer þetta í framlengingu þá fannst mér Stjarnan aðeins sterkari."
Breiðablik varð fyrir nokkrum áföllum í leiknum vegna meiðsla. Elfar Freyr Helgason, Andri Rafn Yeoman og Viktor Örn Margeirsson þurftu allir að fara af velli.
„Við byrjuðum leikinn í 3-4-3 en svo þurftum við að breyta í 4-3-2-1 þegar Elfar fer út af. Við ákváðum að fara aftur í 3-4-3 í framlengingunni svo þetta var ringulreið í taktíkinni. Mér fannst leikurinn hjá okkur heilt yfir góður og þetta er fúlt. Við eigum leik á fimmtudaginn á móti Fylki og þetta stappar í okkur stálinu," sagði Ágúst.