Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, verður ekki áfram með liðið á næstu leiktíð en þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is eftir 4:1-sigur liðsins gegn FH í 17. umferð deildarinnar á Kaplakrikavelli í dag.
„Ég hef tilkynnt forráðmönnum Stjörnunnar það að ég verði ekki áfram með liðið á næstu leiktíð,“ sagði Ólafur meðal annars og þá staðfesti hann einnig að núverandi þjálfarateymi liðsins, þau Andrés Ellert Ólafsson og Þóra Björg Helgadóttir, muni einnig kveðja félagið í lok tímabilsins.
Ólafur var hins vegar sáttur með stigin þrjú í Kaplakrika í dag en með sigrinum tryggði Stjarnan sér þriðja sæti deildarinnar.
„Þetta var ekki fallegasti leikur í heimi og langt frá því að vera okkar besti leikur á tímabilinu þannig að ég er fyrst og fremst sáttur með stigin þrjú. Það stefndi í mest spennandi lokaumferð í Pepsi-deild kvenna í langan tíma en þetta kláraðist allt saman á öllum vígstöðvum í dag sem er miður en þannig séð er ég sáttur. Við endum sæti ofar en í fyrra, við skoruðum fleiri mörk í ár en á síðustu leiktíð en það er ekkert leyndarmál að við ætluðum okkur stærri hluti í sumar.“
Liðið endaði í öðru sæti í bikarkeppninni og í þriðja sæti í deildinni en Ólafur vill ekki ganga svo langt og segja að tímabilið í ár hafi verið vonbrigði í Garðabænum.
„Markmiðið fyrir tímabilið var að spila eingöngu á íslenskum leikmönnum. Við ætluðum að reyna að spara ákveðnar upphæðir því það er dýrt að vera alltaf í toppbaráttu. Við fengum engan útileikmann sem við vildum og við þurftum því að redda okkur með erlendum leikmönnum, fimm mínútur í mót, sem var vont. Við fengum styttra undirbúningstímabil en önnur lið vegna þátttöku okkar í Meistaradeildinni og ef við horfum til baka þá er þessi árangur í sumar ásættanlegur miðað við allt.“
Margir ungir leikmenn hafa fengið tækifæri með Garðabæjarliðinu í sumar og er Ólafur ánægður með þá þróun.
„Það er frábært að sjá hvernig ungu stelpurnar hafa komið inn í þetta og þær hafa staðið sig mjög vel. Þórdís og Telma hafa sömuleiðis verið frábærar fyrir okkur og þá hefur Berglind einnig verið öflug þegar að hún hefur verið heil heilsu þannig að framtíðin er vissulega björt í Garðabænum,“ sagði Ólafur enn fremur í samtali við mbl.is.