Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, missir af fyrsta leik sínum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í sex ár þegar Kópavogsliðið mætir Fjölni í næstsíðustu umferð Pepsi-deildarinnar í Grafarvogi á sunnudaginn kemur.
Gunnleifur, sem varð 43 ára gamall í sumar, hefur leikið hvern einasta leik Breiðabliks í deildinni frá því hann kom til félagsins frá FH í ársbyrjun 2013. Hann lék jafnframt lokaleik FH í deildinni haustið á undan en hafði þá verið hvíldur í næstsíðasta leiknum.
Hann hefur leikið samtals 131 leik í röð í deildinni á þessum sex árum, með leiknum í kvöld. Leikurinn sem hann lék ekki með FH var sá eini sem Gunnleifur missti af á þremur árum hjá Hafnarfjarðarliðinu. Hann er því búinn að spila 196 af síðustu 197 leikjum sinna liða í deildinni.
Ástæða þess að Gunnleifur mun ekki spila á sunnudaginn er sú að hann fékk rauða spjaldið í leik Breiðabliks og Fylkis í kvöld, fyrir að brjóta á Ragnari Braga Sveinssyni, leikmanni Fylkis, utan vítateigs á 90. mínútu leiksins. Hann tekur því út leikbann í Fjölnisleiknum.
Það mun því koma í hlut Ólafs Íshólms Ólafssonar, varamarkvarðar Breiðabliks, að spila þann leik.
Þetta er annað rauða spjald Gunnleifs í efstu deild en það fyrsta sem verður til þess að hann missir af leik í deildinni. Árið 2010 var hann rekinn af velli í leik með FH gegn Stjörnunni en tók þá bannið út í bikarleik gegn KA.
Þessi samfellda leikjahrina Gunnleifs er sú fimmta besta í sögu efstu deildar karla. Birkir Kristinsson á metið en hann spilaði 198 leiki í röð sem markvörður ÍA og síðan Fram.
Gunnar Oddsson lék 186 leiki í röð í deildinni með Leiftri, KR og Keflavík, Magnús Þorvaldsson lék 154 leiki í röð með Víkingi R. og Daði Lárusson varði mark FH í 137 leikjum í röð.