„Staðráðnir í að sýna okkar rétta andlit“

Davíð Kristján (15) horfir hér á Hákon Inga Jónsson skalla …
Davíð Kristján (15) horfir hér á Hákon Inga Jónsson skalla boltann á Floridana-vellinum í kvöld. mbl.is/Hari

Davíð Kristján Ólafsson, leikmaður Breiðabliks, var ánægður með andsvar Blika í 3:0-sigri á Fylki í Pepsi-deildinni í kvöld eftir grátlegt tap í úrslitaleik Mjólkurbikarsins um síðustu helgi. Breiðablik tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Stjörnunni á laugardaginn var en sýndi aðrar hliðar á sér í kvöld í öflugum sigri þar sem Evrópusæti á næsta tímabili var endanlega tryggt.

„Það var ömurlegt að tapa þessum bikarúrslitaleik í vítaspyrnukeppni þannig að við vorum staðráðnir að koma í þennan leik og sýna okkar rétta andlit fyrir stuðningsmennina og alla hjá félaginu,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is eftir leik en hann hrósaði jafnframt nýju gervigrasi Fylkismanna í hástert og sagði það hafa hjálpað leikmönnum að spila jafnvel og þeir gerðu.

„Þetta er frábært gervigras, við vorum að tala um að það létti á okkur. Það var hálfskrítið hvað maður var ferskur.“

Blikar eiga enn veika von um að fagna Íslandsmeistaratitlinum en þeir eru fimm stigum frá toppliði Vals þegar tvær umferðir eru óleiknar. Davíð segir þó markmiðið einfaldlega vera eitt af efstu þremur sætunum.

„Ég heyrði að Stjarnan gerði jafntefli en við einbeitum okkur bara að okkar markmiðum í klefanum. Vonandi endar þetta eins vel og hægt er. Efstu þrjú sætin voru markmiðið fyrir tímabilið, ég held við yrðum sáttir að ná því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka