Fjölnir fallinn og Blikar í 2. sæti

Fjölnir er fallinn niður í 1. deild eftir 2:0-tap á heimavelli gegn Breiðabliki í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Vegna jafnteflis Fylkis og KR, og sigurs Víkings á Keflavík, á Fjölnir ekki lengur von um að komast upp úr 11. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina, en þá mætir Fjölnir liði Fylkis í Árbænum.

Breiðablik á aftur á móti enn von um að landa Íslandsmeistaratitlinum. Liðið er í 2. sæti, tveimur stigum á eftir Val sem mætir Keflavík á heimavelli í lokaumferðinni. Breiðablik mætir þá KA.

Blikar skoruðu bæði mörk sín í Grafarvoginum í dag í fyrri hálfleik. Gísli Eyjólfsson kom Breiðabliki yfir á 10. mínútu eftir stutta sendingu frá Willum Þór Willumssyni. Oliver Sigurjónsson gerði svo seinna markið beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigsbogans.

Fjölnismenn blésu til sóknar í seinni hálfleik og reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn eða jafna metin, en komust lítt áleiðis. Þeir fengu þó fáein góð færi en reyndu aldrei á Ólaf Íshólm Ólafsson sem stóð í marki Breiðabliks vegna leikbanns Gunnleifs Gunnleifssonar.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og viðtöl koma á vefinn innan skamms.

Fjölnir 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Hans Viktor Guðmundsson (Fjölnir) á skalla sem fer framhjá Mættur fremstur í sókn og skallaði boltann eftir fyrirgjöf Guðmundar Karls frá hægri en náði ekki að stýra honum á markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert