Oliver Sigurjónsson úr Breiðabliki hljómaði ekkert sérlega vongóður um það að með hjálparhönd frá Keflvíkingum gætu Blikar orðið Íslandsmeistarar í knattspyrnu um næstu helgi, þegar mbl.is ræddi við hann í Grafarvogi í dag.
Oliver skoraði laglegt mark úr aukaspyrnu í 2:0-sigri á Fjölni í dag sem varð til þess að Fjölnir féll úr Pepsi-deildinni. Sigurinn kom Breiðabliki upp fyrir Stjörnuna í 2. sæti deildarinnar, og er liðið tveimur stigum á eftir Val fyrir lokaumferðina en með fimm mörkum verri markatölu. Breiðablik tekur á móti KA í lokaumferðinni en Valur mætir botnliði Keflavíkur sem ekki hefur unnið leik í sumar.
„Við þurfum bara að vinna okkar leik. Það er það eina sem við getum stjórnað. Ef að hin liðin misstíga sig þá er það flott fyrir okkur en við búumst svo sem ekki við því,“ sagði Oliver um lokaumferðina. Keflavík hefur eins og fyrr segir ekki sýnt neitt í sumar sem gefur til kynna að liðið muni vinna Val:
„Það er alla vega 0:0 þegar leikurinn byrjar, 11 á móti 11 og allt getur gerst. En Valur er með mjög gott lið. Auðvitað væri það gaman [að landa titlinum] en ég sé það bara ekki gerast. Valsmenn eru það góðir, með betri markatölu en við og dugar jafntefli. Ég sé það ekki gerast en við reynum bara að vinna okkar leik,“ sagði Oliver.
„Það er frábært að vera komnir upp í 2. sæti. Þetta eru leikirnir sem við höfum verið að klára í sumar. Undanfarin ár höfum við svolítið verið að vinna stórleikina en missa stig á móti liðunum fyrir neðan okkur, en þetta er öfugt í ár. Við höfum tapað öllum leikjunum gegn Val og Stjörnunni en unnið leiki eins og í dag. Við gerðum nóg núna. Þetta var ekkert fallegur fótbolti, sérstaklega í seinni hálfleik, en við gerðum nóg,“ sagði Oliver.
Eftir að hafa komist í 2:0 í fyrri hálfleik var sigur Breiðabliks aldrei í mikilli hættu í seinni hálfleik þar sem liðið varðist skipulega og sá til þess að Ólafur Íshólm Ólafsson í markinu þurfti aldrei að taka á honum stóra sínum. Þetta var fyrsti leikur Ólafs í tvö ár en hann kom inn vegna leikbanns Gunnleifs Gunnleifssonar.
„Óli var bara flottur, varði 1-2 skot en við vorum bara það þéttir og góðir að þau þurftu ekki að vera fleiri. Hann stýrði vörninni líka vel og á hrós skilið. Það er erfitt að koma inn á eftir Gulla, sérstaklega í svona leik þar sem Fjölnismenn eru að berjast fyrir lífi sínu, en hann stóð sig vel, rétt eins og vörnin og við miðjumennirnir gerðum líka vel,“ sagði Oliver.