Óli Stefán efstur á blaði hjá KA

Óli Stefán Flóventsson hefur stýrt Grindavík frá árinu 2016.
Óli Stefán Flóventsson hefur stýrt Grindavík frá árinu 2016. Eggert Jóhannesson

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni, er efstur á blaði hjá knattspyrnudeild KA um að taka við liðinu af Srdjan Tufegdzic, núverandi þjálfara liðsins, en þetta staðfesti Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, í samtali við mbl.is í dag.

Óli tilkynnti það fyrr í þessum mánuði að hann myndi hætta sem þjálfari Grindavíkur þegar tímabilinu í Pepsi-deildinni lyki en hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2016. Síðasta umferð deildarinnar fer fram á laugardaginn næsta þegar Grindavík fær ÍBV í heimsókn. Þá var einnig staðfest á dögunum að Srdjan Tufegdzic yrði ekki áfram með KA en hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2016.

Sævar sagði í samtali við mbl.is að hann vonaðist til þess að geta sest niður með Óla Stefáni á þriðjudaginn í næstu viku til þess að fara betur yfir málin. KA hefur nú þegar sett sig í samband við umboðsmann Óla Stefáns en þjálfarinn gaf það sjálfur til kynna að hann ætlaði sér ekki að ræða um framtíð sína, fyrr en að tímabili loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert