Aldrei of gamall til að gera betur

Gunnleifur Gunnleifsson, 43 ára markvörður og fyrirliði Breiðabliks.
Gunnleifur Gunnleifsson, 43 ára markvörður og fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, sagði eftir 4:0 sigur á KA í lokaumferð Pepsi-deildar karla að hann væri mjög stoltur af frammistöðu Kópavogsliðsins á tímabilinu sem lauk í dag.

Blikar enduðu í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Val og áttu möguleika á titlinum fyrir leiki dagsins. Á dögunum töpuðu þeir fyrir Stjörnunni í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik bikarkeppninnar og enduðu því í öðru sæti í tveimur stærstu mótum tímabilsins.

Ertu sáttur eða svekktur eftir að hafa endað í öðru sæti í bæði deild og bikar?

„Það er pínulítið svekkelsi að enda í öðru sæti en maður er alltaf tilfinningaríkur eftir síðasta leik á tímabili. Ég er auðvitað stoltur af þessu tímabili að mörgu leyti. Við erum með flott lið og samheldinn hóp, þjálfararnir eru ofboðslega flottir og þetta gekk allt mjög vel hjá okkur í sumar. Það vantaði herslumuninn í báðum keppnum og nú þarf að finna út hvað þarf að gera til að bæta við það. Annars er ég ofboðslega stoltur af strákunum og hópnum í heild sinni,“ sagði Gunnleifur við mbl.is.

Þið hljótið að horfa til baka á leikina gegn Val og Stjörnunni og stigin sem töpuðust þar?

„Já, það er hægt að tína til alls konar hluti og það eru leikirnir fjórir sem við töpuðum í sumar, gegn Val og Stjörnunni, og það vegur auðvitað þungt. En svo er margt annað í þessu og það var stutt í þetta hjá okkur.“

Þú varst að ljúka enn einu tímabilinu, 43 ára og ætlar að halda áfram. Hvernig líður þér í mótslok?

„Bara vel, líkaminn er bara alltaf eins, mér fannst ég eiga ágætistímabil og er sammála fleirum um það að ég hafi verið betri en í fyrra. Ég held að þetta hafi bara verið eitt af mínum betri tímabilum. Ég reyni alltaf að bæta mig á milli ára og það er engin ástæða til annars en að það sé hægt. Kannski er það sú prósenta sem vantar til þess að við vinnum titla. Alla vega ætla ég að leggja mitt af mörkum til þess, reyna að bæta mig frekar.

Maður er aldrei of gamall til þess gera betur. Þetta er mitt líf, fjölskyldan og fótboltinn, og ég get ekki hugsað mér að gera neitt annað á meðan ég get og einhver nennir að hafa mig í marki þá er ég í þessu að eilífu.“

Gerðuð þið ykkur einhverjar vonir um titilinn fyrir leikinn í dag?

„Já, það gerðum við svo sannarlega. Fyrst og fremst þurftum við þó að hugsa um sjálfa okkur og klára okkar leik. Liðið sýndi mikinn þroska með því að koma í leikinn eins og raunin var og vinna hann sannfærandi. Við stóðum við okkar, svo veit maður ekki hvað hefði getað gerst. Það getur allt gerst í fótbolta. En Valsmenn eru auðvitað verðskuldaðir Íslandsmeistarar og við sendum þeim okkar bestu hamingjuóskir. Þeir voru með þetta í hendi sér, en við gerðum okkar.“

Vissuð þið hvernig staðan var á Hlíðarenda?

„Já, í hálfleik spurðum við hvernig staðan væri. En maður skynjaði á stúkunni í fyrri hálfleiknum hvað var að gerast. Við hefðum eflaust heyrt það strax inn á völlinn ef Keflavík hefði komist yfir,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka