Silfurverðlaunin til Breiðabliks

Blikarnir Willum Þór Willumsson, Thomas Mikkelsen, Viktor Örn Margeirsson og …
Blikarnir Willum Þór Willumsson, Thomas Mikkelsen, Viktor Örn Margeirsson og Oliver Sigurjónsson fagna þriðja marki liðsins gegn KA í dag. Willum skoraði þá sitt annað mark í leiknum. mbl.is/Eggert

Breiðablik tryggði sér silfurverðlaunin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu 2018 á sannfærandi hátt með því að sigra KA 4:0 í lokaumferðinni á Kópavogsvellinum í dag.

Thomas Mikkelsen skoraði fyrsta markið og Willum Þór Willumsson næstu tvö, 3:0 í hálfleik. Mikkelsen innsiglaði síðan sigurinn í seinni hálfleik.

Blikar enda því mótið með 44 stig, jafnmörg og árið 2010 þegar þeir urðu Íslandsmeistarar, en Valsmenn eru hinsvegar Íslandsmeistarar 2018 með 46 stig eftir öruggan sigur á Keflavík, 4:1.

Blikar urðu að vinna 6:0 til að eiga möguleika á að vinna titilinn ef Valur gerði jafntefli við Keflavík. Þeir fengu óskabyrjun því strax á 4. mínútu var dæmd vítaspyrna á KA þegar Gísli Eyjólfsson stakk sér laglega inní vítateiginn og var felldur. Úr spyrnunni skoraði Thomas Mikkelsen af öryggi, 1:0.

Aron Bjarnason fékk dauðafæri á 9. mínútu til að koma Blikum tveimur mörkum yfir, hann fékk stungusendingu frá Gísla, slapp einn upp að KA-markinu en skaut í stöng.

KA pressaði stíft í kjölfarið og fékk einar sex hornspyrnur á 14 mínútna kafla. Eftir eina þeirra varði Gunnleifur Gunnleifsson glæsilega frá Áka Sölvasyni af stuttu færi.

Á 28. mínútu vann Aron Bjarnason boltann út við hliðarlínu, brunaði upp að endamörkum vinstra megin og renndi boltanum út í vítateiginn þar sem Willum Þór Willumsson skoraði með viðstöðulausu skoti, 2:0.

Þar með voru Blikar með öll tök á leiknum og sóttu áfram af krafti við hvert tækifæri. Á 36. mínútu fengu þeir hornspyrnu frá hægri, Mikkelsen skallaði boltann inn að markteig þar sem Willum Þór stýrði honum í netið með höfðinu, 3:0.

Aron Bjarnason komst enn einu sinni í gegn rétt fyrir hlé en Aron Elí Gíslason í KA-markinu varði vel frá honum.

Blikar voru áfram líklegri til að skora í seinni hálfleiknum og fjórða markið kom á 67. mínútu. Aron Bjarnason slapp enn laus vinstra megin í vítateig KA og renndi boltanum fyrir markið þar sem Mikkelsen kom á ferðinni og skoraði sitt annað mark, 4:0.

En þá voru vonirnar um Íslandsmeistaratitilinn löngu gufaðar upp á Kópavogsvelli, enda Valur með yfirburðastöðu gegn Keflavík á sama tíma.

KA var með fjóra af erlendu leikmönnum sínum í leikbanni í dag og þrír af þeirra yngri mönnum voru í fyrsta skipti í byrjunarliði í efstu deild.

Breiðablik 4:0 KA opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu Blikar voru að útnefna Willum Þór mann leiksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert