Atli Viðar orðinn fyrrverandi fótboltamaður

Atli Viðar Björnsson fagnar 100. marki sínu í efstu deild, …
Atli Viðar Björnsson fagnar 100. marki sínu í efstu deild, sumarið 2015. mbl.is/Eva Björk

Einn farsælasti leikmaður Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Dalvíkingurinn Atli Viðar Björnsson, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Atli Viðar greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni. Þar segir hann meðal annars: „Rúmum 32 árum eftir fyrsta fótboltamótið, 22 árum eftir fyrsta meistaraflokksleikinn með Dalvík og eftir 18 ár hjá FH er skrýtið að vera allt í einu orðinn „fyrrverandi“ fótboltamaður. Tel samt að nú sé ágætt að setja punkt og hefja nýjan kafla.“

Atli Viðar Björnsson hefur fagnað fjölda titla með FH á …
Atli Viðar Björnsson hefur fagnað fjölda titla með FH á þessari öld. mbl.is/Golli

Atli Viðar hefur á árum sínum með FH unnið til fjölda titla og skorað 113 mörk í efstu deild fyrir félagið. Þessi 38 ára gamli framherji varð Íslandsmeistari með FH árin 2004, 2005, 2006, 2008, 2009, 2012, 2015 og 2016. Þá varð hann bikarmeistari með liðinu árin 2007 og 2010. Atli Viðar hóf feril sinn hjá Dalvík áður en hann flutti sig í Hafnarfjörðinn fyrir 18 árum, en síðan þá hefur hann leikið með FH utan eins tímabils með Fjölni sem lánsmaður árið 2007.

„Ég hef verið ótrúlega lánsamur að fá að taka þátt í allri velgengninni með FH undanfarin ár og geng þakklátur af velli. Fótboltinn hefur verið stór hluti af lífi mínu alla mína tíð og verður það áfram, bara með allt öðrum hætti. Takk fyrir mig,“ segir Atli Viðar.

Atli Viðar Björnsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum í ágúst 2005.
Atli Viðar Björnsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum í ágúst 2005. mbl.is/Jim Smart
Atli Viðar á ferðinni með boltann í leik gegn ÍBV …
Atli Viðar á ferðinni með boltann í leik gegn ÍBV sumarið 2003. mbl.is/Sverrir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert