„Ég fann að það er meira pælt í manni en í fyrra. Maður fékk alveg að finna fyrir því. Hvað heitir vinur minn aftur, Ásgeir Börkur [Ásgeirsson, leikmaður Fylkis]? Mér leið bara eins og hann væri inni á vellinum til að elta mig allan helvítis leikinn. Hann hafði ekkert annað verkefni. Fleiri voru þannig, sem léku aftast á miðjunni – eltu mig lengst út á kant ef þess þurfti.“
Þetta segir Blikinn Gísli Eyjólfsson, besti maður Pepsi-deildar karla í fótbolta í sumar samkvæmt M-einkunnagjöf Morgunblaðsins. Gísli er léttur í bragði þegar ég ræði við hann í Hádegismóunum, enda búinn að ljúka góðu tímabili með Breiðabliki (silfur í deild þvert á spár og einnig silfur í bikar) og á leið í sólina á Krít í frí með kærustu sinni.
Gísli sló í gegn í fyrra og tókst að byggja vel ofan á það tímabil í ár, sem gæti átt eftir að skila honum út í atvinnumennsku í vetur. Þessi 24 ára gamli miðjumaður var ansi nærri því að hætta í fótbolta áður en hann kom inn í meistaraflokk Breiðabliks, en náði sér af meiðslum, skipti út ruslfæði menntaskólaáranna og tók íþróttina fastari tökum. Það hefur skilað sér og nú vita allir sem fylgjast með fótbolta á Íslandi hver Gísli Eyjólfsson er, ekki síst andstæðingar Breiðabliks sem eru duglegir að brjóta á kappanum eins og hann nefnir.
„Þetta er svo sem fínt. Þá fáum við nokkrar aukaspyrnur fyrir Oliver [Sigurjónsson]. Ég er ekkert að kvarta yfir þessu. Mér fannst bara athyglisvert að sjá muninn á tímabilunum. Í fyrra gat maður meira komið með eitthvað óvænt,“ segir Gísli.
Ítarlegt viðtal við Gísla og uppgjör M-gjafar Morgunblaðsins í úrvalsdeild karla 2018 má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.