Galopnum riðilinn ef við vinnum Sviss

Arnór Ingvi sækir að Steven N'Zonzi í leiknum gegn Frökkum.
Arnór Ingvi sækir að Steven N'Zonzi í leiknum gegn Frökkum. AFP

„Leikurinn var flottur þótt við misstum þetta niður á seinustu mínútunum," sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í fótbolta, um 2:2-jafntefli íslenska liðsins gegn Frökkum ytra í vináttuleik á fimmtudaginn var. Ísland komst í 2:0, en Frakkar skoruðu tvö mörk undir lokin. 

„Heilt yfir spiluðum við vel og sýndum eftir leikina við Belgíu og Sviss að við höfum þetta enn þá í okkur. Heilt yfir þá er ég mjög ánægður með þennan leik."

Arnór var í byrjunarliðinu og komst vel frá sínu. Hann var ánægður með frammistöðu sína. 

„Mér fannst þetta fín frammistaða þótt maður getur alltaf pikkað út eitthvað. Ég fékk fínt færi og tók áhættu og setti boltann á nær í stað þess að rúlla honum í fjær, en heilt yfir er ég ánægður með mitt."

Hann hefur spilað vel með Malmö í Svíþjóð á leiktíðinni og kann hann vel við sig á kunnulegum slóðum. 

„Mér líður mjög vel í Malmö. Ég hef verið í Svíþjóð áður og veit út á hvað þetta gengur, þótt Malmö sé mikið stærri klúbbur en Norrköping. Þetta er líka í Svíþjóð og ég þekki deildina og það hefur hjálpað mér."

Hann er spenntur fyrir leiknum við Sviss í Þjóðadeildinni á mánudaginn kemur, en Sviss vann 6:0-sigur er liðin mættust í sömu keppni í Sviss í síðasta mánuði. 

„Fyrir það fyrsta þurfum við að mæta í leikinn og hafa trú á verkefninu. Við getum alveg unnið Sviss eins og allar aðrar þjóðir og við ætlum okkur að gera það. Ef við vinnum þennan leik við Sviss núna galopnum við riðilinn og getum gert eitthvað," sagði Arnór Ingvi Traustason

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert