Alfreð Finnbogason, framherji íslenska landsliðsins í fótbolta, spjallaði við mbl.is á hóteli landsliðsins um helgina. Hann segir það furðulega tilfinningu að vera svekktur eftir jafntefli við heimsmeistara Frakka á útivelli, en Ísland og Frakkland gerðu 2:2-jafntefli í vináttuleik á fimmtudaginn var.
„Ég finn eiginlega bara svekkelsi, sem er skrítið eftir jafntefli við Frakka á útivelli, en miðað við hvernig leikurinn þróaðist var mjög svekkjandi hvernig við töpuðum þessu niður. Okkur leið gríðarlega vel í 80 mínútur og mér leið mjög vel á vellinum sem og á bekknum eftir að ég fór út af. Það var ekki eins og þeir væru að liggja í færum og því var leiðinlegt að þetta fór svona, en vonandi getum við dregið lærdóm úr þessu."
Íslenska liðið leikur við Sviss Í Þjóðadeildinni á mánudaginn kemur. Liðin mættust í Sviss í síðasta mánuði og lauk leiknum með 6:0-sigri Sviss. Hann segir mikið undir gegn Sviss, bæði til að hefna ófaranna frá síðasta leik, sem og að komast í sem besta stöðu í keppninni.
„Það er mjög erfitt að bera saman leikinn við Sviss og svo leikinn við Frakka. Ég er búinn að vera í landsliðinu í fimm ár og það er ekki oft sem við höfum tapað svona illa og bara ekki átt neinn séns, það var mjög leiðinlegt að horfa upp á það.
Á sama tíma er ekki oft sem við höfum verið með 5-6 leikmenn úr hópnum í meiðslum. Það reyndi á þarna. Ég er ekki að segja að leikmenn eru ómissandi en margir voru að spila sína fyrstu keppnisleiki og það er erfitt og það kom á daginn."
„Við höfum klárlega eitthvað til að svara fyrir, sérstaklega þar sem þetta er Sviss á heimavelli. Það er mikið undir líka, við viljum fá stig í þessari Þjóðadeild og skora okkar fyrstu mörk. Við viljum ekki vera eitt af tveimur liðum í efstu deild sem verður ekki í efsta styrkleikaflokki í næsta drætti. Það er mikið undir þótt margir helda að þetta sé búið."
Bayern München, Þýskalandsmeistarar síðustu sex ára, eru í sjötta sæti efstu deildar í Þýskalandi. Alfreð leikur með Augsburg í sömu deild og segir hann deildina jafnari en áður.
„Oftast eru þetta Bayern og tvö önnur lið en í fyrra var þetta bara Bayern því Dortmund og Leipzig og liðin sem voru að elta voru ekki jafn góð. Núna virðist þetta töluvert jafnara, þar sem Bayern hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum. Þetta er jafnt enn þá því lítið er búið en það lítur út fyrir fleiri lið geta keppst um titilinn.