Þurfum að sanna að þetta hafi verið frávik

Hólmar Örn Eyjólfsson sækir að Antoine Griezmann
Hólmar Örn Eyjólfsson sækir að Antoine Griezmann AFP

Hólmar Örn Eyjólfsson var ánægður með frammistöðu sína fyrir íslenska landsliðið í 2:2-jafnteflinu gegn Frökkum í vináttuleik ytra á fimmtudaginn var. Hólmar, sem oftast spilar sem miðvörður, spilaði vel í hægri bakverði í leiknum. 

„Mér fannst þetta allt í lagi. Augljóslega þá legg ég meiri áherslu á varnarleikinn en sóknarleikinn og fannst það koma ágætlega út. Það eru atriði sem máttu betur fara, en það er viðbúið þegar maður spilar stöðu sem maður er óvanur. Við gáfum ekki mikið af færum á okkur og vorum með þá nokkurn veginn í skefjum þegar við varnarlínan okkar var góð."

Hólmar gæti byrjað leikinn gegn Sviss í Þjóðadeildinni á morgun, sérstaklega ef Birkir Már Sævarsson nær ekki að jafna sig á meiðslum. Hann bætir við að menn séu staðráðnir í að hefna fyrir 6:0-tapið fyrir Sviss í síðasta mánuði. 

„Það kemur í ljós á næstu dögum hvernig Birkir er og við sjáum hvað setur. Við þurfum að sanna að þetta hafi verið frávik í síðasta glugga og við eigum harma að hefna. Það þarf ekki að mótívera menn neitt í þann leik.

Það getur allt gerst ef við vinnum Sviss og sérstaklega ef við fylgjum því eftir með úrslitum á móti Belgíu í síðasta leiknum. Það er mikilvægt að koma inn í þennan leik og reyna að ná í þrjú stig."

Hólmar hefur átt góðu gengi að fagna með Levski Sofía í Búlgaríu og er liðið í toppsætinu þar í landi. 

„Við erum efstir núna og vonandi náum við að halda okkur þar út tímabilið. Það er bullandi gangur í þessu og andi í liðinu, þetta er hrikalega skemmtilegt," sagði Hólmar Örn Eyjólfsson í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert