Hörður Björgvin Magnússon, varnarmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, var svekktur eftir 2:1-tap fyrir Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld. Sviss komst í 2:0, en íslenska liðið var hársbreidd frá því að jafna undir lokin.
„Það er svekkjandi að skora ekki fleiri mörk á þessum síðustu tíu mínútum. Við komum sterkir í síðari hálfleik og fáum góð færi í fyrri hálfleik líka sem við náum ekki að nýta. Við gáfum þeim rosalega ódýr mörk sem kostuðu okkur í dag, en ég er stoltur hvernig við komum til baka. Við áttum skilið að fá alla vega eitt stig.“
Hörður tapaði skallaeinvígi í fyrra marki Sviss og tók hann markið á sig.
„Þetta var auðvitað góð sending og góður skalli. Ég reyndi að fara upp í boltann en ég hefði getað gert betur. Þetta var svekkjandi og auðvitað tek ég þetta á bakið á mér. Ég þarf að skoða þetta, en maður lærir.“
Hann er ánægður með bætta spilamennsku í síðustu tveimur leikjum eftir skelli gegn Belgíu og Sviss.
„Við erum alltaf að verða betri og betri og við fengum Alfreð, Jóa og fleiri til baka núna. Við sýndum karakter og áttum að geta unnið Frakka. Svo komum við hingað og áttum að geta unnið Sviss sem er ofarlega á styrkleikaflokknum og við stríddum þeim vel,“ sagði Hörður.