Fullt hægt að gera í þessum mörkum

Hannes Þór Halldórsson gengur svekktur af velli í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson gengur svekktur af velli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markmaðurinn Hannes Þór Halldórsson var vissulega svekktur eftir 2:1-tap fyrir Sviss í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. Að mati Hannesar hefði verið átt að vera hægt að koma í veg fyrir mörk Svisslendinga. 

„Það var fullt hægt að gera í þessum mörkum. Það er svekkjandi að tapa þessu því við sáum tækifæri til að vinna. Það hefði verið mikilvægt skref að vinna þetta því það hefði komið okkur langt með að vera í fyrsta styrkleikaflokki fyrir EM dráttinn. Við getum sjálfum okkur um kennt.

Við spiluðum allt í lagi í fyrri hálfleik en við spiluðum fyrsta hálftímann í seinni hálfleik illa. Við sýndum hvað í okkur býr síðustu tíu mínúturnar og það var gott að sjá. Það er hins vegar skrítið að við skulum vera á hálfum hraða allan seinni hálfleikinn nánast.“

Síðustu tveir leikir eru búnir að vera mun betri heldur en leikirnir tveir gegn Sviss og Belgíu þar á undan. Hann segir leikmenn vera að læra betur á Erik Hamrén, landsliðsþjálfara. 

„Þetta er eðlilegt landsleikjahlé á meðan hitt var óeðlilegt. Við höfum fundið betur taktinn þótt við töpum í dag. Við erum ekki vanir því að tapa á heimavelli. Þetta var vakning í síðasta landsleikjahléi, við þurftum að muna aðeins hvað við erum góðir. Við vorum betri en þeir í fyrri hálfleik og leikurinn við Frakka var góður.

Það eru allir að finna taktinn í þessu, hann er að kynnast okkur og við honum. Fyrsta landsleikjahléið var próf fyrir alla, en nú þekkja allir hver annan betur. Við erum að vinna með það góða sem við höfum og svo smá breyting hér og þar.“

Hann segir afar svekkjandi að ná ekki að jafna leikinn í lokin, er íslenska liðið sótti grimmt. 

„Auðvitað var það mjög svekkjandi, við lágum á þeim og í svona leik á heimavelli þá skorum við venjulega meira en eitt mark og fáum ekki á okkur tvö. Ef allt er eðlilegt vinnum við svona leik og það var svekkjandi að ná ekki jafnteflinu,“ sagði Hannes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert