Stutt í næsta sigurleik

Jóhann Berg Guðmundsson átti fínan leik gegn Sviss í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson átti fínan leik gegn Sviss í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Berg Guðmundson, kantmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur að það sé stutt í næsta sigurleik hjá liðinu, þrátt fyrir tap gegn Sviss í 2. riðli Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli í kvöld.

„Það sem er mest svekkjandi við þennan leik er að lenda 2:0-undir og fá á sig svona ódýr mörk í þokkabót. Við eigum að gera miklu betur varnarlega en Alfreð kemur okkur aftur inn í leikinn með frábæru marki og við lágum á þeim síðustu mínúturnar en það dugði ekki til í kvöld. Mér fannst þeir ekki skapa sér mikið í leiknum en það má ekki gleymast að þetta er frábært lið sem er á topp tíu á heimslistanum,“ sagði Jóhann í samtali við mbl.is.

Jóhann segir skýr batamerki á liðinu frá því í síðasta landsleikjahléi þar sem liðið tapaði fyrir Sviss ytra og Belgíu á heimavelli í Þjóðadeildinni en Jóhann var fjarri góðu gamni í báðum leikjunum vegna meiðsla.

„Við vorum ansi nálægt því að jafna og fengum nokkra frábæra sénsa en þegar upp er staðið þá töpuðum við leiknum og það er hundfúlt. Þessir tveir síðustu leikir gegn Frökkum og Sviss hafa verið ágætir og þetta er bæting frá síðasta landsleikjahléi. Markmiðið er að fara á næsta Evrópumót og við eigum góða möguleika á því að mínu mati.“

Kantmaðurinn öflugi segir að liðið ætli sér á EM 2020 og ef það á að takast þarf liðið að fara að vinna leiki.

„Við mætum í hvern einasta leik til þess vinna hann og það er orðið ansi langt síðan við unnum leik og það er súrt. Það styttist í næsta sigurleik hjá okkur en eins og ég sagði áðan þá ætlum við okkur á EM 2020 en til þess þá þufum við að fara skila einhverjum sigrum í hús. Sjálfstraustið í liðinu er gott, þrátt fyrir að það sé orðið ansi langt síðan við unnum leik,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert