Sigurður Marinó Kristjánsson er genginn til liðs við Þór eftir eitt ár hjá Magna Grenivík. Sigurður hefur allan sinn feril leikið með Þór, að undanskildu síðasta ári. Vefsíða Þórs greindi frá þessu í dag.
Sigurður er 27 ára gamall miðjumaður og spilaði sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk Þórs árið 2007. Síðan þá hefur hann spilað 234 leiki með Þór og skoraði hann alls 17 mörk fyrir Þórsara.
Gregg Ryder tók við liði Þórs af Lárusi Orra Sigurðarsyni eftir tímabilið sem var að líða. „Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi og ljóst að reynsla Sigurðar á eftir að vega þungt og ljóst að nú gleðjast Þórsarar almennt. Bjóðum Sigurð Marinó velkomin til Þórs á ný og vonum að hér heima eigi honum eftir að líða vel og blómstra sem aldrei fyrr,“ segir á heimasíðu Þórs.