„Ísland er langt á eftir“

Arnar Sveinn Geirsson í leik með Íslandsmeisturum Vals.
Arnar Sveinn Geirsson í leik með Íslandsmeisturum Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég þekki fullt af leikmönnum sem eru ótrúlega kvíðnir fyrir því að koma inn á fótboltavöllinn. Þeim finnst gaman í fótbolta, gaman að æfa, en finnst ekki gaman að spila leikina því þeir verða svo kvíðnir. Margir af þeim eru meðal betri leikmanna Pepsi-deildarinnar,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, leikmaður Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu.

Arnar Sveinn hefur vakið nokkra athygli utan fótboltavallarins með því að hafa með opinskáum hætti lýst áralangri baráttu sinni við sorgina sem fylgdi því þegar hann missti móður sína, Guðrúnu Helgu Arnarsdóttur, aðeins 11 ára gamall. Honum er umhugað að breyta ákveðinni menningu í íþróttaheiminum, sérstaklega í hópíþróttum, þar sem hann segir einfaldlega allt of lítið svigrúm vera veitt fyrir leikmenn til þess að vinna úr andlegum erfiðleikum þegar þeir komi upp, og of lítið gert til að sporna gegn þeim með forvörnum.

Þetta átti sinn þátt í því að Leikmannasamtök Íslands völdu Arnar Svein sem fulltrúa á ráðstefnu á vegum FIFPro, alþjóðasamtaka knattspyrnumanna, í Hollandi á dögunum þar sem hann tók þátt í vinnustofum og hlýddi á fyrirlestra um andlega heilsu í íþróttum.

„Það voru þarna fulltrúar leikmannasamtaka alls staðar að úr heiminum og alls um 100-120 manns. Það sem sló mann mest var það hve Ísland er gríðarlega langt á eftir í þessum efnum,“ segir Arnar Sveinn. Hann segir margt hægt að gera til að bæta umhverfi íþróttamanna og beina þeim á réttar brautir í glímu við andlega erfiðleika. Í mörgum löndum séu leikmannasamtök áberandi í þeirri baráttu enda oftast mun stærri og með mun meira fjármagn til að spila úr en þau íslensku. Fjölga þurfi félögum í íslensku samtökunum eða styrkja þau með öðrum hætti til að þau geti verið það stuðningsnet sem til þarf.

„Í Noregi gefa til dæmis landsliðsmenn 1-2% af því sem þeir fá fyrir að vera í landsliðinu til sinna samtaka. Ég get alveg viðurkennt sjálfur að ég var ekki hluti af leikmannasamtökunum, og það var af því að maður spurði sig bara hvað maður fengi út úr því sjálfur. En það er ekki alveg málið. Svona samtök eiga að vera vettvangur fyrir leikmenn til að leita sér aðstoðar – hjálpa þeim að finna úrræði þegar þeir lenda í einhverju, hvort sem það eru áföll innan eða utan fótboltans. Það geta verið meiðsli, vandræði með samninga eða annað, og samtökin eiga að vera til staðar ef maður lendir í einhverju,“ segir Arnar Sveinn.

En hvað gætu öflug leikmannasamtök, íþróttafélögin eða sérsambönd gert til að hlúa betur að andlegri heilsu leikmanna? Á ráðstefnunni í Hollandi talaði fulltrúi leikmannasamtaka Englands en samtökin sjá til að mynda um að hafa opna símalínu á öllum stundum sólarhringsins sem leikmenn, fyrrverandi eða núverandi, geta hringt í til þess að tala við sérfræðing og fá ráðgjöf.

„Það er einmitt fullt hægt að gera, þó að erfitt sé að bera sig saman við ensku samtökin sem hafa verið til í yfir 100 ár. Það er þó hægt að læra af þeim. Ég get ekki talað fyrir hönd leikmannasamtakanna en það væri svo gott til dæmis ef að samtökin gætu verið vettvangur fyrir leikmenn, og þau gætu haft sálfræðinga á sínum snærum sem þau vita að vinna mikið með íþróttamönnum. Það að sálfræðiþjónustan væri jafnframt niðurgreidd af íþróttafélögunum eða sérsamböndum myndi líka hjálpa mikið til,“ segir Arnar.

Sjá allt viðtalið við Arnar Svein í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka