Ásgerður ekki áfram í Stjörnunni

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir hefur spilað samfleytt með Stjörnunni frá árinu …
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir hefur spilað samfleytt með Stjörnunni frá árinu 2005. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar til margra ára, mun ekki vera áfram í herbúðum félagsins en þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í gær. Samningur hennar við Stjörnuna rann út í október og hefur hún ákveðið að framlengja ekki samning sinn við félagið.

Ásgerður hefur spilað samfleytt með Stjörnunni frá árinu 2005 en hún er uppalin í Breiðabliki. Ásgerður á að baki 271 leik með Stjörnunni þar sem hún hefur skorað 37 mörk. Þá á hún að baki 10 A-landsleiki fyrir Ísland en hún hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari með Garðbæingum og þrívegis bikarmeistari. Ekki er enn þá ljóst hvað tekur við hjá þessum öfluga miðjumanni en hún er ekki hætt knattspyrnuiðkun.

„Ég hef ekki rætt formlega við önnur lið. Ég vildi klára mín mál hjá Stjörnunni áður en ég færi í einhverjar viðræður en það hafa einhverjar þreifingar átt sér stað, undanfarna daga. Þetta er allt í lausu lofti hjá mér eins og staðan er í dag en ég vil ekki útiloka neitt. Ég get alla vega lofað þér því að ég er ekki að fara leggja skóna á hilluna,“ sagði Ásgerður enn fremur í samtali við mbl.is í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka