Helmingurinn æfði í Brussel

Freyr Alexandersson ræðir við leikmenn á æfingu
Freyr Alexandersson ræðir við leikmenn á æfingu mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kom saman í Brussel í gær og hóf þar með undirbúning sinn fyrir leikinn gegn Belgum í Þjóðadeild UEFA sem fram fer á Koning Boudewijn Stadion á fimmtudagskvöldið. Fjórum dögum síðar mæta Íslendingar liði Katar í vináttuleik sem einnig verður spilaður í Belgíu.

Helmingurinn af landsliðshópnum æfði á æfingavelli við hlið þjóðarleikvangsins seinni partinn í gær og stýrði aðstoðarþjálfarinn Freyr Alexandersson æfingunni en landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén var með hinn helminginn á fundi á liðshótelinu í Brussel. Fyrir hádegi æfir svo allur hópurinn en ljóst er að íslenska liðsins bíður afar erfitt verkefni enda Belgar með eitt besta landsliðs heims og skaust uppfyrir heimsmeistara Frakka á nýjasta styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Það hafa komið vondar fréttir af íslensku landsliðsmönnunum á síðustu dögum en hver leikmaðurinn á fætur öðrum hefur orðið fyrir meiðslum. Ekkert lát var á vondu fréttunum í gær en þá kom í ljós að Gylfi Þór Sigurðsson getur ekki spilað eftir ljóta tæklingu Brasilíumannsins Jorginho í viðureign Chelsea og Everton í fyrradag. Daginn áður hafði Jóhann Berg Guðmundsson helst úr lestinni og var Andri Rúnar Bjarnason kallaður inn í hópinn í hans stað. Fyrir á meiðslalistanum voru þeir Emil Hallfreðsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Jón Daði Böðvarsson og Björn Bergmann Sigurðarson en Ragnar Sigurðsson er í leikbanni. Ljósið í myrkrinu er að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er mættur til leiks á nýjan leik en hann hefur ekkert leikið með landsliðinu frá því Ísland tapaði fyrir Króatíu lokaleik sínum í riðlakeppni HM í Rússlandi í sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert