Theódór Elmar Bjarnason hefur fengið samningi sínum við tyrkneska knattspyrnufélagið Elazigspor rift. Hann er með nokkur tilboð í höndunum um samning hjá öðrum tyrkneskum félögum en útilokar ekki að snúa aftur til Íslands og þá kæmi aðeins eitt félag til greina.
Elazigspor, sem leikur í næstefstu deild Tyrklands, á í miklum fjárhagsvandræðum og hefur ekki getað greitt laun til leikmanna. Elmar á inni milljónir króna hjá félaginu og leitaði réttar síns hjá FIFA áður en hann fékk samningi sínum rift. Líklegt mun vera að aðilar komist að samkomulagi um að Elmar fái 115.000 evrur, jafnvirði rúmlega 16 milljóna króna, en það veltur þó á því hvort Elazigspor tekst að forðast gjaldþrot.
„Það hafa engir leikmenn fengið laun á þessari leiktíð svo ég leitaði til FIFA. Þá hafði félagið 15 daga til að borga, gerði það ekki og því er ég laus allra mála og er bara að skoða ný tilboð,“ sagði Elmar við mbl.is í dag.
„Við misstum þrettán leikmenn fyrir tímabilið og það kom enginn í staðinn, því félagið var í leikmannaskiptabanni út af vanskilum frá því í fyrra. Á æfingum hafa því verið margir áhugamenn sem kæmust ekki í 2. deildina á Íslandi. Aðstæður voru því orðnar óásættanlegar,“ sagði Elmar, sem kunni hins vegar ágætlega við sig í Elazig, sem er nokkuð austarlega í Tyrklandi.
„Ég kynntist fullt af frábæru fólki. Þarna er menning sem maður er óvanur, mjög trúað og íhaldssamt samfélag sem maður hefur ekki upplifað áður. Það var mjög skemmtilegt að prófa það, ég kynntist mörgu góðu fólki og það var leiðinlegt að geta ekki klárað tímann þarna almennilega. En ég þorði ekki að taka sénsinn á því að vera þarna og meiðast kannski, í þessari stöðu,“ sagði Elmar.
Eins og staðan er núna er ekki ólíklegt að Elmar haldi áfram í næstefstu deild Tyrklands en hann er opinn fyrir fleiri möguleikum.
„Ég loka engum dyrum. Ég er kominn með 5-6 tilboð frá Tyrklandi núna og er að ræða við félögin um hversu mikið þau séu tilbúin að borga fyrir fram, því ég vil ekki lenda í svona löguðu aftur. Það eru líka einhverjar þreifingar í gangi við félög í Evrópu. Það eru þó allt aðrar fjárhæðir í boði í Tyrklandi en maður gæti fengið annars staðar í Evrópu, og það er eitthvað sem ég þarf að vega og meta,“ sagði Elmar, sem hóf feril sinn sem leikmaður KR áður en hann fór í atvinnumennsku árið 2004. Hann hefur verið í Skotlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og nú síðast Tyrklandi frá árinu 2017.
„Ég þekki fullt af fólki í KR og það væri sá kostur sem ég myndi velja ef ég kæmi heim,“ sagði Elmar, sem er 31 árs gamall og á að baki 41 A-landsleik.