Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu sem sló í gegn með Röa í norsku úrvalsdeildinni í ár og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir sem var í stóru hlutverki hjá Stjörnunni, eru gengnar til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Kristianstad.
Kristianstadsbladet skýrði frá þessu fyrir stundu en Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað lið Kristianstad frá 2009 og Sif Atladóttir hefur leikið með liðinu frá 2011. Kristianstad náði sínum besta árangri frá upphafi á nýliðnu tímabili þegar liðið endaði í fjórða sæti.
Svava, sem er 23 ára gömul, kom til Röa frá Breiðabliki fyrir nýliðið tímabil og varð næstmarkahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 14 mörk í 21 leik. Hún lék með Val til 2014 en síðan með Breiðabliki í þrjú ár. Svava hefur skorað 26 mörk í 103 leikjum í íslensku úrvalsdeildinni og hefur spilað 12 A-landsleiki, auk 25 leikja með yngri landsliðum Íslands.
Þórdís, sem er 25 ára gömul, lét mikið að sér kveða með Stjörnunni en hún spilaði með liðinu á ný eftir eins árs fjarveru vegna meiðsla. Hún hefur áður spilað í sænsku B-deildinni með Älta árin 2014 og 2015. Þórdís hefur leikið 89 leiki í úrvalsdeildinni með Stjörnunni og Breiðabliki og skorað 21 mark og hún á að baki 29 leiki með yngri landsliðum Íslands.