Jafntefli í síðasta leik HM-ársins

Kolbeinn Sigþórsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark síðan á EM 2016 …
Kolbeinn Sigþórsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark síðan á EM 2016 en Erik Hamrén þarf enn að bíða eftir fyrsta sigrinum sem þjálfari Íslands. mbl.is/Eggert

Bið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu eftir sigri lengist enn en liðið gerði í kvöld 2:2-jafntefli við Katar í vináttulandsleik í bænum Eupen í Belgíu.

Leikurinn byrjaði skelfilega fyrir íslenska liðið en strax á 3. mínútu komst Katar yfir þegar föst aukaspyrna fyrirliðans Hassan Al Heidos utan af kanti fór yfir Rúnar Alex Rúnarsson og í fjærhornið. Ísland náði fínum tökum á leiknum um miðjan fyrri hálfleik, án þess þó að skapa sér mikið af færum en helst var að Kolbeinn Sigþórsson gerði sig líklegan í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í yfir tvö ár, hvort sem horft er til landsliðs eða félagsliðs.

Ísland jafnaði metin eftir hálftíma leik þegar Arnór Sigurðsson náði í aukaspyrnu nokkrum metrum utan teigs. Ari Freyr Skúlason tók spyrnuna og setti boltann yfir varnarvegginn, í stöngina og þaðan af markverði Katar og í markið. Sennilega verður markið skráð sem sjálfsmark en annars er um að ræða fyrsta landsliðsmark Ara sem fagnaði vel.

Kári meiddist en Kolbeinn skoraði langþráð mark

Íslenski hópurinn er án margra leikmanna vegna meiðsla og enn bættist nafn á meiðslalistann þegar Kári Árnason fór meiddur af velli á 35. mínútu. Hjörtur Hermannsson kom inn á í hans stað og Ari tók við fyrirliðabandinu. Eggert Gunnþór Jónsson fékk tækifæri í byrjunarliði Íslands í sínum fyrsta landsleik í sex ár, en hann lék á miðjunni fyrir framan miðverðina þrjá sem Erik Hamrén tefldi fram í leikkerfinu 3-5-2, líkt og í tapinu gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á fimmtudag.

Ísland komst yfir snemma í seinni hálfleik þegar Kolbeinn Sigþórsson skoraði úr vítaspyrnu sem Hjörtur Hermannsson nældi í. Kolbeinn skoraði síðast fyrir landsliðið á EM sumarið 2016 en hann hefur nú gert 23 mörk og er þremur mörkum frá markameti Eiðs Smára Guðjohnsen. Kolbeinn fór af velli skömmu síðar en Hamrén gaf mörgum leikmönnum tækifæri til að spreyta sig í seinni hálfleiknum.

Þrettán í röð án sigurs

Katarar jöfnuðu metin í 2:2 um miðjan seinni hálfleik þegar Boualem Khoukhi skoraði með föstu skoti af nokkuð löngu færi yfir Rúnar Alex, sem setti ekki sérstaka pressu á Hannes Þór Halldórsson í baráttunni um sæti í byrjunarliði með frammistöðu sinni í kvöld.

Liðin fengu fá færi til að skora sigurmark eftir þetta og niðurstaðan varð því 2:2-jafntefli, sem þýðir að Ísland þarf enn að bíða eftir næsta sigri. Liðið hefur nú leikið 13 leiki í röð án sigurs en næst á dagskrá er undankeppni EM sem hefst seinni hluta mars og fer öll fram á næsta ári. Dregið verður í riðla sunnudaginn 2. desember.

Katar 2:2 Ísland opna loka
90. mín. Ali Hassan Afif (Katar) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert