Anna Rakel til Linköping

Anna Rakel Pétursdóttir leikur með Linköping næstu tvö ár.
Anna Rakel Pétursdóttir leikur með Linköping næstu tvö ár. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Rakel Pétursdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, mun leika sem atvinnumaður á næsta ári en hún hefur skrifað undir samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Linköping.

Anna Rakel, sem er tvítug, hefur leikið með Þór/KA allan sinn feril. Hún á að baki 4 A-landsleiki og hefur leikið 24 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hún varð Íslandsmeistari með Þór/KA í fyrra.

Samningur Önnu Rakelar við Linköping er til tveggja ára. Linköping endaði í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en varð Svíþjóðarmeistari árin 2016 og 2017. Liðið komst í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í haust en féll þar úr leik gegn PSG, samtals 5:2.

„Anna er virkilega spennandi leikmaður sem passar fullkomlega inn í okkar lið,“ segir Olof Unogård, þjálfari Linköping.

„Líkt og flestir íslenskir leikmenn er hún hörð af sér og sterk í návígjum, en fyrst og fremst er hún mjög góð með boltann, sem sést einnig af því að hún hefur spilað fjölda leikja sem miðjumaður,“ segir Unogård, en bætir við að sem örvfættur leikmaður geti Anna Rakel að sjálfsögðu leikið sem bakvörður og að hún nýtist vel í föstum leikatriðum.

Þar með fjölgar íslenskum leikmönnum í sænsku úrvalsdeildinni en Guðrún Arnardóttir samdi á dögunum við Djurgården. Fyrr í vetur gengu þær Svava Rós Guðmundsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir til liðs við Kristianstad. Rakel Hönnudóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir hafa hins vegar ákveðið að yfirgefa Limhamn Bunkeflo og er óvíst hvað tekur við hjá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert