Annar Bliki til Midtjylland

Nikola Djuric á æfingasvæði Midtjylland.
Nikola Djuric á æfingasvæði Midtjylland. Ljósmynd/fcm.dk

Danska knattspyrnufélagið Midtjylland, sem er ríkjandi meistari í Danmörku, hefur fengið til sín annan leikmanninn frá Breiðabliki á þessu ári.

Það er 17 ára sóknar- eða kantmaður, Nikola Djuric, sem á að baki fjóra leiki með U17 ára landsliði Íslands, sem hefur samið við Midtjylland en félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Í sumar fékk Midtjylland til sín 18 ára markvörð frá Breiðabliki, Elías Rafn Ólafsson, og þriðji Íslendingurinn sem er á mála hjá félaginu er Mikael Anderson, leikmaður 21-árs landsliðs Íslands. Hann er hinsvegar í láni hjá Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni.

Flemming Broe, yfirmaður akademíu Midtjylland, segir um Nikola Djuric: „Hann er fjölhæfur sóknarmaður sem kann best við sig á vinstri kantinum en getur líka leikið sem fremsti maður. Hann er með góða tækni, með réttan hugsunarhátt gagnvart æfingum og keppni, og á Íslandi hefur hann bæði skorað mikið af mörkum og lagt þau upp," segir Broe á vef Midtjylland.

Þess má geta að yngri bróðir Nikola, Danijel Dejan Djuric, hefur þegar leikið 14 leiki fyrir yngri landslið Íslands en hann er aðeins 15 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert