Gary Martin og tveir Danir til Vals

Gary Martin, Lasse Petry og Emil Lyng á Hlíðarenda í …
Gary Martin, Lasse Petry og Emil Lyng á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Penninn var á lofti á Hlíðarenda í dag þegar Íslandsmeistarar Vals í knattspyrnu styrktu lið sitt með þremur erlendum leikmönnum. Tveir þeirra hafa leikið hér á landi áður.

Framherjinn Gary Martin snýr aftur hingað til lands og skrifaði undir þriggja ára samning við Val. Hann er 28 ára gamall og hefur leikið með ÍA, KR og Víkingi R. hér á landi, síðan með Lillestrøm í Noregi, Lokeren í Belgíu og York City á Englandi, en lék á síðustu leiktíð á ný með Lillestrøm. Hann hefur alls spilað 93 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 43 mörk. Þá skoraði hann 19 mörk í 25 leikjum fyrir ÍA í 1. deild fyrst þegar hann kom hingað til lands.

Annar framherji, Emil Lyng, snýr sömuleiðis aftur til landsins og skrifaði undir tveggja ára samning við Val. Lyng er 29 ára gamall, lék með KA í Pepsi-deildinni sumarið 2017 og skoraði þá níu mörk í 20 leikjum eftir að hafa komið frá Silkeborg. Frá KA fór hann til Skotlands og gekk í raðir Dundee United, en síðast lék hann í Ungverjalandi.

Þriðji leikmaðurinn sem Valur samdi við er einnig danskur, en það er miðjumaðurinn Lasse Petry. Hann er 26 ára gamall og semur einnig til næstu tveggja ára eins og Lyng. Petry kemur til Vals frá Lyngby en hann er uppalinn hjá Nordsjælland þar sem hann á að baki um 100 leiki frá árinu 2011. Hann á að baki leiki með U21 árs og U20 ára landsliðum Dana.

Vals­menn hafa misst dönsku sókn­ar­menn­ina Pat­rick Peder­sen og Tobi­as Thomsen frá síðasta tímabili og þá er Dion Acoff laus allra mála hjá félaginu. Áður hafði Valur fengið Kaj Leo í Bartals­stovu frá ÍBV, Garðar Gunn­laugs­son frá ÍA og Birni Snæ Inga­son frá Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert