Jón Dagur bjargaði jafntefli gegn Svíum

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði jöfnunarmarkið.
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði jöfnunarmarkið. Haraldur Jónasson/Hari

Ísland og Svíþjóð skildu jöfn, 2:2, er liðin mættust í vináttuleik karla í fótbolta í Katar í dag. Íslenska liðið var marki yfir í hálfleik, en Svíar snéru taflinu sér í vil í síðari hálfleik og komust í 2:1. Jón Dagur Þorsteinsson jafnaði hins vegar metin í uppbótartíma og tryggði Íslandi jafntefli. 

Íslenska liðið byrjaði af krafti og Óttar Magnús Karlsson skoraði fyrsta mark leiksins strax á fimmtu mínútu. Hann fékk þá boltann rúmum 20 metrum, lét vaða og boltinn hafnaði í bláhorninu fjær. 

Ísland fékk nokkur færi til að bæta við mörkum fyrir hlé. Guðmundur Þórarinsson átti gott skot sem var glæsilega varið, Óttar Magnús skallaði rétt framhjá úr dauðafæri og Arnór Smárason komst í gott færi, en lét verja frá sér og var staðan í hálfleik þá 1:0. 

Svíar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og Viktor Gyökeres skoraði strax á 2. mínútu hálfleiksins er hann skaut á milli fóta Frederiks Schram eftir sókn upp hægri kantinn. Sænska liðið hélt áfram að sækja og það kom því ekki á óvart þegar Simon Thern skoraði á 66. mínútu og breytti stöðunni í 2:1, Svíum í vil. 

Íslenska liðið var ekki líklegt til þess að jafna næstu mínútur, því Svíar héldu yfirhöndinni og fengu fleiri færi. Jöfnunarmark Íslands í uppbótartíma kom því nokkuð gegn gangi leiksins. Óttar Magnús Karlsson vann skallaeinvígi á vallarhelmingi Svía og boltinn barst á Hilmar Árna Halldórsson sem átti snyrtilega sendingu sem sendi Jón Dag einn gegn Isak Pettersson í marki Svía. Jón Dagur kláraði af miklu öryggi og tryggði jafntefli. 

Ísland leikur gegn Eistlandi síðari leik sínum í Katar á þriðjudaginn kemur. 

Ísland 2:2 Svíþjóð opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma. Ísland reynir að sækja en það gengur illa að skapa færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka