Stjarnan og Breiðablik í úrslitaleik

Guðjón Baldvinsson skoraði fyrra mark Stjörnunnar í kvöld.
Guðjón Baldvinsson skoraði fyrra mark Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Hari

Stjarnan og Breiðablik leika til úrslita um fyrsta bikarinn í knattspyrnunni á árinu 2019 en það varð ljóst í kvöld eftir að Stjarnan sigraði ÍA, 2:0, í síðasta leiknum í riðlakeppni Fótbolti.net mótsins í Kórnum í Kópavogi.

Guðjón Baldvinsson og Tristan Freyr Ingólfsson skoruðu mörk Garðbæinga með mínútu millibili um það bil fimmtán mínútum fyrir leikslok.

ÍA hefði nægt jafntefli til að vinna riðilinn en Stjarnan náði efsta sætinu með 7 stig. ÍA fékk 6 stig, FH 4 en Keflavík ekkert.

Í B-riðlinum sem lauk um síðustu helgi fékk Breiðablik 7 stig, HK 5, Grindavík 4 stig en ÍBV ekkert.

Stjarnan og Breiðablik leika því um sigurinn á mótinu en þetta er þriðja árið í röð sem Garðabæjarliðið spilar til úrslita. Stjarnan vann í fyrra. ÍA og HK leika um þriðja sætið, FH og Grindavík um fimmta sætið og Keflavík og ÍBV leika um sjöunda sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka