Hinn 17 ára gamli Andri Fannar Baldursson úr Breiðabliki hefur verið lánaður til ítalska A-deildarliðsins Bologna út tímabilið en félagið getur gengið frá kaupum á leikmanninum á meðan lánssamningurinn er í gildi. Þetta kemur fram á blikar.is.
Andri Fannar, sem lék einn leik með Blikum í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð, þá 16 ára gamall, hefur verið mjög eftirsóttur. Í nóvember fór hann til reynslu hjá ítalska A-deildarliðinu SPAL sem í kjölfarið gerði tilboð í leikmanninn. Í desember fór svo Andri fannar til skoðunar hjá Bologna þar sem hann heillaði forráðamenn félagsins og hefur hann nú verið lánaður til 30. júní í sumar.
Bologna, sem sjö sinnum hefur hampað ítalska meistaratitlinum, er í 18. sæti af 20 liðum í ítölsku A-deildinni.