Metfjöldi í atvinnumennskunni

Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir …
Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir leika allar erlendis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aldrei hafa fleiri íslenskar knattspyrnukonur leikið með erlendum félögum en einmitt nú, eða alls 19 leikmenn. Þar af eru 15 leikmenn sem hafa jafnan verið valdir í landsliðsverkefni á síðustu árum. Tvær þeirra eru á lánssamningi með það í huga að snúa aftur í Pepsi-deildina í vor.

Þrjár íslenskar knattspyrnukonur eru hjá þýskum félagsliðum, en þýsk og frönsk lið hafa verið fremst í flokki í Evrópu síðustu ár og óhætt að flokka þýsku og frönsku deildina sem þær sterkustu í álfunni.

Tvær eru hjá bandarískum félagsliðum en bandaríska atvinnumannadeildin er sömuleiðis ein sú alsterkasta í heiminum, þar sem leikmenn heimsmeistara bandaríska landsliðsins spila meðal annars langflestar. Ein íslensk knattspyrnukona leikur í Englandi og níu í sænsku úrvalsdeildinni sem í gegnum tíðina hefur verið langvinsælasta deildin hjá íslenskum atvinnukonum. Í fyrsta sinn leika nú íslenskar knattspyrnukonur í efstu deild Hollands og eru þær tvær, ein leikur í Austurríki og ein á Ítalíu.

Við þennan lista má svo bæta að innan við vika er síðan að þær Fanndís Friðriksdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir léku með áströlsku liði sem lánsmenn. Þá hafði Dagný Brynjarsdóttir hins vegar ekki gengið frá samningi sínum við Portland Thorns. Fanndís, sem lék í Frakklandi tímabilið 2017-2018, er nú snúin aftur úr atvinnumennsku til Vals og því eru sem fyrr segir 19 íslenskar knattspyrnukonur hjá félögum utan landsteinanna.

Fréttaskýringu um íslenskar konur í atvinnumennsku í knattspyrnu er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert