Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, kveðst vera ósáttur við hvernig umræðan um málefni íslenskrar knattspyrnu hafi þróast í kosningaslag þeirra Guðna Bergssonar og Geirs Þorsteinssonar um embætti formanns KSÍ undanfarna daga.
Ársþing KSÍ fer fram á Hótel Hilton í Reykjavík á morgun en þar verður kosið á milli Guðna og Geirs eins og ítarlega hefur verið fjallað um að undanförnu.
„Ég veit að ég mæli fyrir munn margra forráðamanna í aðildarfélögum KSÍ þegar ég segi að í aðdraganda formannskjörsins á ársþingi sambandsins á morgun, og umfjöllunar fjölmiðla um kosningabaráttuna undanfarna daga, hafi hin svokölluðu stóru mál fallið í skuggann fyrir því sem skiptir minna máli fyrir félögin sjálf,“ sagði Jón Rúnar í samtali við mbl.is í dag en hann hefur lengi verið í brúnni hjá knattspyrnudeild FH.
Jón Rúnar tekur sem dæmi viðtal Stöðvar 2 við Aleksander Ceferin, forseta UEFA, og umræðurnar sem af því spunnust þegar forsetinn kvaðst styðja sitjandi formann.
„Því miður hefur alltof mikið púður farið í þetta viðtal og umræður út frá því. Einnig hafa ýmsar illa ígrundaðar yfirlýsingar einstaklinga sem hafa ekki neitt með rekstur og þaðan af síður ábyrgð félaganna að gera náð athyglinni, á kostnað málefnanna. Hér er um að ræða einstaklinga sem stöðu sinnar vegna telja sig geta haft áhrif á umræðuna, sem þeir hafa gert, en þeir hafa hinsvegar ekki borið neina ábyrgð á rekstri félaganna, hvað þá komið að innri uppbyggingu á íslenskum fótbolta,“ sagði Jón Rúnar.
Hverjir eru þessir einstaklingar sem þú vísar til?
„Þar má nefna landsliðsfólk, fyrrverandi dómara og menn sem hafa verið í stuði allt sitt líf! Að sjálfsögðu má fólk lýsa yfir stuðningi við hvern sem það vill en það er ekki smekklegt að draga aðra niður í svaðið um leið, og eins langt frá íþróttamannslegri framkomu og mögulegt er. Í raun má segja að tilgangurinn hafi helgað meðalið. Það verða að vera málefnalegu rökin sem ráða för.
Mér finnst til dæmis yfirlýsingar landsliðskvennanna ekki gera neitt annað en að gera lítið úr verkum Guðrúnar Ingu Sívertsen, fráfarandi varaformanns KSÍ, sem hefur vaðið eld og brennistein fyrir þessar frábæru knattspyrnukonur, með fullri virðingu fyrir öðrum innan stjórnar sambandsins.“
Spurður hver hafi verið helstu baráttumál forráðamanna félaganna sagði Jón að þeir vildu fá meira af beinni aðkomu að ákvörðunum um skipan mála. „Við þurfum að fá meiri sjálfsákvörðunarrétt í málum sem snúa beint að hagsmunum félaganna. Þar má nefna markaðs- og kynningarmál, mótamál, sem og fræðslu og uppbyggingu á rekstri félaganna.“
Jón kvaðst vilja horfa til nágrannaþjóðanna hvað varðar fyrirkomulagið á starfsemi knattspyrnusambandsins og samvinnu þess við aðildarfélögin.
„Þeir sem hafa t.d. kynnt sér fyrirkomulagið annars staðar á Norðurlöndum, sem við viljum einna helst bera okkur saman við, vita að þar er aðkoma deildarsamtaka mikil og að þar eru þau málefni sem tengjast beint félögunum meira og minna á ábyrgð þessara samtaka. Þróun og framganga félaganna í þessum löndum er komin mun lengra en þekkist hér á landi. Ég hef kynnst mörgum forráðamönnum félaga á Norðurlöndum, m.a. í gegnum þátttöku okkar í Evrópukeppni, og það er samdóma álit allra sem ég hef rætt við að þessi skipan mála hefur skipt þeirra félög öllu máli, enda er það þannig að ábyrgð á eigin málum er grundvöllur framfara," sagði Jón Rúnar.
Hann vildi ekki svara beint spurningunni um hvern hann styddi í formannskjörinu á morgun en Jón Rúnar fer þar með eitt þeirra 152 atkvæða sem í boði eru.
„Ég segi bara það að ég stend með þeim sem hefur málefni félaganna í forgrunni, það hefur alla tíð verið mín afstaða. Ég hef ekki mikið verið að velta því fyrir mér hvernig þetta mál liggur og get ekki á neinn hátt tjáð mig um það. Það er einlæg von mín að þeir forystumenn íslenskra knattspyrnumanna sem fara með atkvæði kjósi um innihald en ekki umbúðir,“ sagði Jón Rúnar Halldórsson.