Ásta Eir Árnadóttir hefur verið kölluð upp í A-landsliðshóp Íslands í fótbolta fyrir Algarve-mótið. Hún kemur í stað Söndru Maríu Jessen sem er að glíma við meiðsli.
Ásta hefur ekki áður verið í A-landsliðshópi en hún á að baki 25 leiki fyrir U17 og U19 ára landslið Íslands. Ásta, sem er 25 ára gömul, hefur allan sinn feril leikið með Breiðabliki, alls 110 leiki og í þeim skorað fimm mörk.
Ísland mætir Kanada miðvikudaginn 27. febrúar og Skotlandi 4. mars. Leikið verður um sæti 6. mars.