Hallbera Guðný Gísladóttir leikur sinn 100. landsleik á morgun þegar Ísland mætir Kanada í fyrsta leik sínum í Algarve-bikarnum í knattspyrnu á Estadio Bela Vista-vellinum í Parchal á suðurströnd Portúgals.
Hallbera, sem er 33 ára gömul og leikur með Val, verður sú áttunda í röðinni til að ná 100 leikja markinu. Katrín Jónsdóttir er leikjahæsti leikmaður landsliðsins með 133 leiki en síðan koma Sara Björk Gunnarsdóttir (121), Margrét Lára Viðarsdóttir (117), Dóra María Lárusdóttir (114), Hólmfríður Magnúsdóttir (112), Þóra B. Helgadóttir (108) og Edda Garðarsdóttir (103).
„Ef allt gengur að óskum á æfingunni í dag þá spila ég minn 100. landsleik. Ég hef svo sem ekkert verið að horfa í þessa tölu en að sjálfsögðu er þetta ákveðinn áfangi á ferlinum með landsliðinu. Það verður mjög gaman að komst í þennan góða hóp sem hefur náð að spila 100 leiki fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Hallbera í samtali við mbl.is frá sólinni í Portúgal en hún var þá að undirbúa sig fyrir fyrstu æfingu liðsins fyrir leikinn á móti Kanada.
Kanada er í fimmta sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins en flestir leikmenn liðsins spila í bandarísku atvinnumannadeildinni. Ísland og Kanada hafa einu sinni mæst áður en það var í Algarve-bikarnum fyrir þremur árum þar sem Kanada hafði betur, 1:0. Hallbera spilaði þann leik.
„Við vitum svona nokkurn veginn um styrk og getu kanadíska liðsins. Leikmenn Kanada eru miklir íþróttamenn og eru fljótir og sterkir. Þessi leikur verður því alvöru verkefni fyrir okkur. Við náðum góðri ferð saman á Spáni í janúar þar sem við náðum að stilla saman okkar strengi undir stjórn nýs þjálfara og eins og alltaf mætum við til leiks með því hugarfari að ætla okkur að vinna. Við erum með gott lið og á góðum degi getum við gert ýmislegt. Ef við förum eftir okkar gildum, náum að vera þéttar fyrir og berjast þá eigum við að geta gefið þeim hörkuleik,“ sagði Hallbera.
Hallbera segir aðstæðurnar í Portúgal séu alveg upp á það besta. „Hér og sól og hiti og það væsir ekki um okkur. Margar í liðinu þekkja allt hérna enda búnar að taka þátt í þessu móti mörg undanfarin ár. Það er eins og að koma heim til sín að mæta hingað,“ sagði Hallbera.
Í þeim 99 leikjum sem Hallbera hefur spilað hefur hún skorað 3 mörk.
„Miðað við markatölfræði mína þá eru kannski ekkert miklar líkur á að ég skori í 100. leiknum en ég gæti átt stoðsendingu. Ég hef gert meira af því en að skora mörk en jú vissulega yrði gaman að skora í þessum tímamótaleik,“ sagði vinstri bakvörðurinn.
Leikurinn á morgun verður annar leikurinn undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar en hann tók við þjálfun liðsins í haust af Frey Alexanderssyni. Jón Þór stýrði íslenska liðinu til 2:1 sigurs á móti Skotum í vináttuleik á La Manga í janúar en Ísland og Skotland eigast við í Algarve-bikarnum 4. mars.